Seðlabankinn hækkar vexti í 15%

mbl.is/Ómar

Seðlabankinn hefur ákveðið að hækka stýrivexti bankans um 1,25 prósentur  í 15%. Segir bankinn, að forsendur verðbólguspár sem birtist í Peningamálum í nóvember sl. og fól í sér óbreytta stýrivexti fram á síðari helming þessa árs, hafi brugðist.

Í greinargerð bankans segir, að verðbólga hafi reynst mun meiri en spáð var og verðbólguvæntingar hafi vaxið. Eftirspurn hafi einnig verið meiri en búist var við. Gengi krónunnar hafi lækkað töluvert meira en reiknað var með í frá­viksspánni, sem birt var í nóvemberhefti Peningamála, en í henni var gert ráð fyrir að brugðist yrði við slíkri þróun með hækkun stýrivaxta.

„Raungengi krónunnar er nú mjög nærri sögulegu lágmarki síðustu áratuga sem það náði í nóvember 2001. Gangi lækkunin ekki til baka er einsýnt að verðbólga eykst mikið og langvarandi verðbólguvandi væri fyrir stafni ef ekkert yrði að gert með tilheyrandi víxlhækkunum verðlags, launa og gengis erlendra gjaldmiðla. Lækkun gengis krón­unnar undanfarnar vikur kemur einnig illa við efnahagsreikninga skuldsettra heimila og fyrirtækja, sem grefur undan stöðugleika fjár­málakerfisins til lengri tíma litið. Því er mikilvægt að gengislækkunin gangi sem fyrst til baka.

Versnandi fjármálaskilyrði í heiminum hafa leitt til þess að erfiðara er en áður að fjármagna viðskiptahalla. Aðlögun í þjóðarbúskapnum með samdrætti eftirspurnar verður því tæpast umflúin. Hún verður því sárs­aukafyllri sem verðbólga fær að leika lengur lausum hala. Því er óhjá­kvæmilegt að reka áfram mjög aðhaldssama peningastefnu þannig að böndum verði komið á verðbólgu og verðbólguvæntingar og gengi krónunnar verði traustara í sessi," segir í tilkynningu Seðlabankans.

Bankinn birtir næst ákvörðun um vexti 10. apríl.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka