Seðlabankinn hækkar vexti í 15%

mbl.is/Ómar

Seðlabank­inn hef­ur ákveðið að hækka stýri­vexti bank­ans um 1,25 pró­sent­ur  í 15%. Seg­ir bank­inn, að for­send­ur verðbólgu­spár sem birt­ist í Pen­inga­mál­um í nóv­em­ber sl. og fól í sér óbreytta stýri­vexti fram á síðari helm­ing þessa árs, hafi brugðist.

Í grein­ar­gerð bank­ans seg­ir, að verðbólga hafi reynst mun meiri en spáð var og verðbólgu­vænt­ing­ar hafi vaxið. Eft­ir­spurn hafi einnig verið meiri en bú­ist var við. Gengi krón­unn­ar hafi lækkað tölu­vert meira en reiknað var með í frá­viks­spánni, sem birt var í nóv­em­ber­hefti Pen­inga­mála, en í henni var gert ráð fyr­ir að brugðist yrði við slíkri þróun með hækk­un stýri­vaxta.

„Raun­gengi krón­unn­ar er nú mjög nærri sögu­legu lág­marki síðustu ára­tuga sem það náði í nóv­em­ber 2001. Gangi lækk­un­in ekki til baka er ein­sýnt að verðbólga eykst mikið og langvar­andi verðbólgu­vandi væri fyr­ir stafni ef ekk­ert yrði að gert með til­heyr­andi víxl­hækk­un­um verðlags, launa og geng­is er­lendra gjald­miðla. Lækk­un geng­is krón­unn­ar und­an­farn­ar vik­ur kem­ur einnig illa við efna­hags­reikn­inga skuld­settra heim­ila og fyr­ir­tækja, sem gref­ur und­an stöðug­leika fjár­mála­kerf­is­ins til lengri tíma litið. Því er mik­il­vægt að geng­is­lækk­un­in gangi sem fyrst til baka.

Versn­andi fjár­mála­skil­yrði í heim­in­um hafa leitt til þess að erfiðara er en áður að fjár­magna viðskipta­halla. Aðlög­un í þjóðarbú­skapn­um með sam­drætti eft­ir­spurn­ar verður því tæp­ast um­flú­in. Hún verður því sárs­auka­fyllri sem verðbólga fær að leika leng­ur laus­um hala. Því er óhjá­kvæmi­legt að reka áfram mjög aðhalds­sama pen­inga­stefnu þannig að bönd­um verði komið á verðbólgu og verðbólgu­vænt­ing­ar og gengi krón­unn­ar verði traust­ara í sessi," seg­ir í til­kynn­ingu Seðlabank­ans.

Bank­inn birt­ir næst ákvörðun um vexti 10. apríl.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK