Vaxtahækkun í samræmi við fyrri orð

Ingólfur Bender
Ingólfur Bender

Ingólfur Bender, forstöðumaður Greiningar Glitnis, segir hækkun stýrivaxta nú í takt við það sem Seðlabankinn hafi áður sagt. Spurning sé hins vegar  um hvort ekki hafi þurft að hækka stýrivexti strax í febrúar. „Það var ljóst að verðbólgan var yfir því sem Seðlabankinn var að reikna með í síðasta hefti Peningamála og í ljósi gengisþróunar krónunnar þá hafa verðbólguhorfur versnað talsvert," segir Ingólfur.

Að sögn Ingólfs var þessi aðgerð nú nauðsynleg til þess að styðja við trúverðugleika peningastefnunnar. 

Í takt við breytingar hjá erlendum seðlabönkum

Hvað varðar þær breytingar sem Seðlabankinn hefur gripið til þess að liðka fyrir viðskiptum á fjármálamörkuðum segir Ingólfur að með þeim sé aukið við fjármagn í umferð. Það er að auka fjárstreymi erlendis frá. Með þessu er skapað meira fjármagn fyrir banka og fleiri fjármálafyrirtæki að spila úr með því að þau fá aukin tækifæri til þess að taka lán hjá Seðlabankanum. „Með þessu er verið að stíga skref sem er algjörlega í takt við þau skref sem erlendir seðlabankar hafa verið að stíga undanfarið. Þeirra reglur hér heima hafa verið heldur stífari heldur en hjá mörgum öðrum seðlabönkum. Til að mynda þeim bandaríska og þeim evrópska. Ef við færum okkur nær þá er norski seðlabankinn með mun rýmri reglur heldur en sá íslenski, jafnvel eftir þessar breytingar. Þannig að það er mjög eðlilegt að Seðlabankinn stígi þetta skref nú og ekki merki um annað en að þeir eru að taka á þessum málum með svipuðum hætti og gert hefur verið erlendis. Og um leið skapa íslensku fjármálalífi svipuð skilyrði og eru erlendis," segir Ingólfur.

Aðspurður segir Ingólfur að með þessu batni þau skilyrði sem íslensku fjármálafyrirtækin búa við hvað varðar að geta endurlánað út á markaðinn.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK