Fjármálakreppa ekki endilega fylgifiskur samdráttar á Íslandi

Þrátt fyrir að líklegt sé að samdráttarskeið sé að hefjast á Íslandi þá þýðir það ekki endilega að fjármálakreppa þurfi að fylgja með, að því er segir í ritstjórnargrein á vef Financial Times.

Þar er fjallað um ákvörðun Seðlabanka Íslands að hækka stýrivexti um 1,25% í gær í 15% vegna mikillar verðbólgu sem nú sé á Íslandi. Fram kemur að vísitala neysluverðs hefur hækkað um rúmlega 4% síðastliðið ár og að verðbólgan sé langt fyrir ofan verðbólgumarkmið Seðlabankans, sem eru 2,5%. Að Seðlabankanum hafi ekki tekist að hemja verðbólguna og að Ísland líði fyrir vangaveltur um stöðu íslensku bankanna. Hætta sé á að erlendir fjárfestar muni flýja af hólmi og íslenska krónan fari á hliðina og efnahagur landsins muni dragast umtalsvert saman.

Í leiðaranum er fjallað um stöðu efnahagsmála á Íslandi undanfarin ár, hve hraður vöxturinn hafi verið í íslensku fjármálalífi og hagvöxturinn aukist hratt. Þessu hafi fylgt hækkun á fasteignaverði í Reykjavík og að fjármálakerfið hafi fengið milljarða dala að láni erlendis frá og erlendir fjárfestar hafi keypt krónubréf.

Ólíklegt að íslensku bankarnir fari sömu leið og Northern Rock

En þrátt fyrri allt þá þýðir þetta ekki endilega að Ísland muni fara í gegnum fjármálakreppu. Því þrátt fyrir verðbólgu og mikinn halla á vöruskiptum þá sé staða ríkissjóðs góð. Skiljanlegt sé að fjárfestar hafi áhyggjur af stöðu mála í íslensku hagkerfi og stöðu íslensku bankanna þriggja, Glitnis, Kaupþings og Landsbankans. Bankarnir hafi hins vegar brugðist við með því að fjármagna sig frekar með auknum innlánum, fjármögnun þeirra nái nú lengra fram í tímann og stórlega hafi dregið úr líkum á að þeirra bíði sömu örlög og breska bankanum Northern Rock sem var þjóðnýttur fyrir skömmu.

Í lokaorðum ritstjórnargreinarinnar kemur fram að það væri synd að óþarfa skelfing á erlendum mörkuðum hefði þau áhrif að nauðsynlegar aðgerðir til að hægja á verðbólgunni á Íslandi skekki stöðuna enn frekar í landi þar sem hagkerfið er gott og vel til þess fallið að takast á við 21. öldina með sterka stöðu í sjávarútvegi, ferðamennsku, tækni og álframleiðslu sem er knúinn áfram af hreinni orku.

Ritstjórnargrein Financial Times í heild 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK