Bankar og sparisjóðir eru með vaxtabreytingar til skoðunar hjá sér í kjölfar stýrivaxtahækkunar Seðlabankans um 1,25 prósentustig. Sparisjóðirnir hafa þegar hækkað vexti um 0,25 prósentustig á svonefndum hattalánum, sem er hluti af lánasamstarfi Íbúðalánasjóðs og sparisjóðanna.
Hjá Landsbankanum fengust þau svör að vextir óverðtryggðra út- og innlána myndu hækka um allt að 1,25 prósentustig þann 1. apríl.
Talsmaður Glitnis sagðist reikna með að vextir bankans myndu breytast á næstu dögum í takt við hækkun Seðlabankans. Hjá Kaupþingi fengust þau svör að engar ákvarðanir hefðu verið teknar.