Breskir fjölmiðlar hafa fjallað mikið um íslensk efnahagsmál undanfarna daga. Blaðið Daily Telegraph segir í dag, að ástandið á Íslandi geti haft áhrif á Tyrkland, Eystrasaltsríkin, Balkanríkin, Ungverjaland og hugsanlega Suður-Afríku.
Segir blaðið, að allt séu þetta lönd, sem lifi langt um efni fram og hafi stoppað í fjármálagöt með ódýru lánsfjármagni. Erlend lán hafi vaxið langt umfram öruggan „hámarkshraða".
Blaðið segir, að brothætt hagkerfi Íslands ætti að vera öðrum löndum víti til varnaðar. Seðlabankinn hafi neyðst til að hækka vexti í 15% til að stöðva gengisfall krónunnar. Þá hafi eignasafn íslensku bankanna sett heimsmet: áttfalda landsframleiðslu Íslands.
Nú hafi verið skrúfað fyrir ódýra fjármagnið og skuldatryggingaálag bankanna sé komið yfir 800 stig, svipað og skuldatryggingaálag Bear Stearns var áður en bandaríski seðlabankinn kom þeim banka til aðstoðar. Þetta vekur upp þá spurningu, hvort íslenska ríkið, sem ráði yfir hagkerfi á stærð við Bristol, sé nægilega öflugt til að skjóta skildi fyrir bankana ef allt fer á versta veg.
„En Ísland er annað og meira en norrænn vogunarsjóður sem þykist vera land. Það er líka fyrsta skuldsetta ríkið sem verður fyrir barðinu á fjárfestaflótta og þannig kveikir það viðvörunarljós á stóru svæði í Austur-Evrópu og við Miðjarðarhaf," segir blaðið.
Haft er eftir sérfræðingi í málefnum Austur-Evrópu hjá Capital Economics, að hann myndi ekki vilja geyma fé í tyrkneskri líru og það sé í raun merkilegt hve líran hafi haldið sínu lengi. Tyrkneska hagkerfið sé afar viðkvæmt og viðskiptahallinn sé um 8% af vergri landsframleiðslu. Þá sé ríkissaksóknari landsins að reyna að koma ríkisstjórn landsins frá.
Blaðið segir, að viðskiptahalli Íslands sé nú 16% af landsframleiðslu, viðskiptahalli Lettlands er 25%, Búlgaríu 19%, Georgíu 18%, Eistlands 16%, Lettlands 14% og Serbíu 13%.
„Það er hætta á sálfræðilegu smiti frá Íslandi. Fólk er farið að skoða þessi lönd mun betur. Það var auðvelt að fjármagna viðskiptahallann þegar nóg var af ódýru lánsfé en við teljum að lánsfjárkreppan muni hafa það í för með sér að slíkt verði mun erfiðara nú," hefur blaðið eftir Ed Parker, yfirmanni hjá greiningarfyrirtækinu Fitch. „Fjármálakreppusagan bendir til þess, að það sé hættulegt að halda að þróunin verði „öðruvísi í þetta sinn,"" segir hann.