Þetta er fyrirsögn á frétt í danska viðskiptablaðinu Børsen þar sem fjallað er um verðfall íslenskra hlutabréfa síðustu mánuði. Segir blaðið, að Úrvalsvísitalan hafi lækkað um 55% undanfarna sex mánuði og aðeins ein hlutabréfavístitala í heiminum hafi lækkað meira: Ho Chi Minh vísitalan í Víetnam, sem hefur lækkað um 56%.
Serbnesk hlutabréf koma í þriðja sæti en hlutabréfavísitala þar í landi hefur lækkað um 42%. Þá hefur vísitalan í Jórdaníu lækkað um 40%.
Blaðið lætur þess getið, að þeir íslensku fjárfestar, sem haldið hafa fast í hlutabréf sín undanfarin ár hafi samt hagnast vel því þrátt fyrir lækkunina nú hafi íslensk hlutabréfavístiala fjórfaldast frá árinu 2001.