Vísitala neysluverðs hækkaði um 1,47% frá fyrra mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkaði um 1,49% frá febrúar. Síðastliðna tólf mánuði (miðað við verðlag í upphafi mánaðar í fyrra en um miðjan mánuð nú) hefur vísitala neysluverðs hækkað um 8,7% en vísitala neysluverðs án húsnæðis um 6,4%. Hefur verðbólgan ekki verið jafn mikil frá því í mars 2002 eða í 6 ár, er hún mældist einnig 8,7%. Í janúarmánuði 2002 mældist verðbólgan 9,4% og 8,9% í febrúar 2002.
Verðbólga hefur aukist um 12,8% á þriggja mánaða tímabili
Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 3,1% sem jafngildir 12,8% verðbólgu á ári (12,1% fyrir vísitöluna án húsnæðis).
Greiningardeildir bankanna spáðu 1,2-1,4% verðbólgu í mánuðinum og hefði það þýtt að tólf mánaða verðbólga hækkaði úr 6,8% í 8,4-8,6%. Í síðasta mánuði hækkaði vísitala neysluverðs um 1,38% frá fyrra mánuði.
Á þriðjudag hækkaði Seðlabanki Íslands stýrivexti sína um 1,25% í 15%. Var það gert þar sem verðbólga hefur reynst mun meiri en spáð var og verðbólguvæntingar hafa vaxið.
Kostnaður vegna reksturs bifreiða jókst um 3,1%
Í frétt Hagstofu Íslands kemur fram að kostnaður vegna reksturs eigin bifreiðar jókst um 3,1% (vísitöluáhrif
0,45%). Þar af hækkaði verð á nýjum bílum um 2,9% (0,18%) og á bensíni
og olíum um 5,0% (0,25%).
Verð á fatnaði og skóm hækkaði um 6,3%
Vetrarútsölum er víðast lokið og
hækkaði verð á fötum og skóm um 6,3% (0,26%). Kostnaður vegna eigin
húsnæðis jókst um 1,1% (0,22%), þar af voru 0,15% áhrif vegna hærri
raunvaxta og 0,07% vegna hækkunar á markaðsverði húsnæðis.