Mikil velta hefur verið á skuldabréfamarkaði í morgun eða 26 milljarðar króna í kjölfar birtingar verðbólgutalna. Hefur ávöxtunarkrafa verðtryggðra bréfa lækkað þar sem fjárfestar vilja frekar eiga verðtryggð bréf en óverðtryggð þegar verðbólga mælist jafn mikil og raun ber vitni. Ávöxtunarkrafa óverðtryggðra skuldabréfa hefur á hinn bóginn hækkað fyrir utan bréf til skamms tíma.
Úrvalsvísitalan lækkar um 2,45%
Úrvalsvísitalan hefur lækkað um 2,45% og er 4.902,74 stig. Lítil viðskipti hafa verið með hlutabréf í morgun eða einungis fyrir tæpa tvo milljarða króna. Ekkert félag hefur hækkað í verði en Icelandic Group hefur lækkað um 7,66%. Exista hefur lækkað um 4,26%, FL Group um 4,2%, Kaupþing um 3,21% og SPRON og Glitnir um 2,55%.
Veiking krónunnar 3,13%
Krónan hefur veikst um 3,13% það sem af er degi en velta á millibankamarkaði nemur 25,4 milljörðum króna. Stendur gengisvísitalan í 158,35 stigum en var 153,40 stig við upphaf viðskipta í morgun. Bandaríkjadalur er 78 krónur, evran 123,50 krónur og pundið 156,05 krónur.