Reynt að draga úr verðbólguþrýstingi í Kína

Hveitiakur í Kína
Hveitiakur í Kína AP

Stjórn­völd í Kína hafa ákveðið að greiða bænd­um meira fyr­ir hveiti- og hrís­grjóna­fram­leiðslu sína til þess að draga úr auk­inni verðbólgu og verðbólguþrýst­ingi áður en Ólymp­íu­leik­arn­ir verða haldn­ir í Pek­ing, höfuðborg Kína.

Bann hef­ur verið lagt á verðhækk­an­ir á hrís­grjón­um, matarol­íu og öðrum mat­vör­um til þess að reyna að stöðva hækk­andi mat­ar­kostnað heim­il­anna en sam­kvæmt vísi­tölu neyslu­verðs, mæld í fe­brú­ar, hækkaði mat­arliður vísi­töl­unn­ar um 23,3% á ein­um mánuði. Mikl­ar verðhækk­an­ir hafa ein­kennt Kína frá miðju síðasta ári í kjöl­far auk­inn­ar eft­ir­spurn­ar eft­ir svína­kjöti og korni. Verðhækk­an­irn­ar hafa komið illa við kín­versk heim­ili en talið er að meðal­heim­ili eyði um það bil helm­ing tekna fjöl­skyld­unn­ar í mat.

Eitt helsta stefnu­mál kín­verska stjórn­valda nú er að reyna að draga úr verðbólgu og standa von­ir til þess að hægt verði að hemja verðbólgu við 4,8% markið, sem er sama verðbólga og var í Kína á síðasta ári. Hins veg­ar telja flest­ir efna­hags­sér­fræðing­ar ólík­legt að það tak­ist. Hljóðar þeirra spá að meðaltali upp á 6,4% ár­sverðbólgu. 

Kín­versk stjórn­völd hvetja bænd­ur til þess að auka fram­leiðslu sína með því að heita þeim ým­is­kon­ar stuðningi. Segja stjórn­völd að næg­ar mat­ar­birgðir séu til í land­inu en óveður sem dundi á suður­hluta lands­ins í janú­ar og fe­brú­ar eyðilagði mikið af kornupp­skeru svæðis­ins.

Sam­kvæmt nýrri til­skip­un stjórn­valda fá bænd­ur 77-82 jú­ana fyr­ir 50 kg af hrís­grjón­um sem er hækk­un upp á 7 jú­ana. Verð á hveiti til bænda hækk­ar um 3-5 jú­ana í 72-75 jú­ana fyr­ir 50 kg sekk. Jafn­framt ákvað rík­is­stjórn Kína að auka niður­greiðslur til bænda um 20,6 millj­arða jú­ana og verða þær því alls 75,9 millj­arðar jú­ana í ár.


mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK