Reynt að draga úr verðbólguþrýstingi í Kína

Hveitiakur í Kína
Hveitiakur í Kína AP

Stjórnvöld í Kína hafa ákveðið að greiða bændum meira fyrir hveiti- og hrísgrjónaframleiðslu sína til þess að draga úr aukinni verðbólgu og verðbólguþrýstingi áður en Ólympíuleikarnir verða haldnir í Peking, höfuðborg Kína.

Bann hefur verið lagt á verðhækkanir á hrísgrjónum, matarolíu og öðrum matvörum til þess að reyna að stöðva hækkandi matarkostnað heimilanna en samkvæmt vísitölu neysluverðs, mæld í febrúar, hækkaði matarliður vísitölunnar um 23,3% á einum mánuði. Miklar verðhækkanir hafa einkennt Kína frá miðju síðasta ári í kjölfar aukinnar eftirspurnar eftir svínakjöti og korni. Verðhækkanirnar hafa komið illa við kínversk heimili en talið er að meðalheimili eyði um það bil helming tekna fjölskyldunnar í mat.

Eitt helsta stefnumál kínverska stjórnvalda nú er að reyna að draga úr verðbólgu og standa vonir til þess að hægt verði að hemja verðbólgu við 4,8% markið, sem er sama verðbólga og var í Kína á síðasta ári. Hins vegar telja flestir efnahagssérfræðingar ólíklegt að það takist. Hljóðar þeirra spá að meðaltali upp á 6,4% ársverðbólgu. 

Kínversk stjórnvöld hvetja bændur til þess að auka framleiðslu sína með því að heita þeim ýmiskonar stuðningi. Segja stjórnvöld að nægar matarbirgðir séu til í landinu en óveður sem dundi á suðurhluta landsins í janúar og febrúar eyðilagði mikið af kornuppskeru svæðisins.

Samkvæmt nýrri tilskipun stjórnvalda fá bændur 77-82 júana fyrir 50 kg af hrísgrjónum sem er hækkun upp á 7 júana. Verð á hveiti til bænda hækkar um 3-5 júana í 72-75 júana fyrir 50 kg sekk. Jafnframt ákvað ríkisstjórn Kína að auka niðurgreiðslur til bænda um 20,6 milljarða júana og verða þær því alls 75,9 milljarðar júana í ár.


mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK