Vísitala neysluverðs í marsmánuði hækkaði örlítið meira frá fyrra mánuði en greiningardeildir bankanna gerðu ráð fyrir. Hækkunin var 1,47% en deildirnar gerðu ráð fyrir 1,2–1,4% hækkun milli mánaða. Forstöðumenn greiningardeildanna spá því að verðbólgan muni aukast enn frekar í næsta mánuði en hún muni lækka hratt er komið verður fram á sumarið. Það sé þó háð því að krónan hætti að veikjast.
Ingólfur Bender, forstöðumaður Greiningar Glitnis, segir að það sem standi upp úr varðandi mælinguna á vísitölu neysluverðs nú sé að gengisáhrifin hafi komið skjótt fram. Útsölulok séu einnig kröftugur áhrifavaldur og húsnæðisverð hafi hækkað, sem komi nokkuð á óvart.
„Við reiknum með að verðbólgan muni verða enn meiri í næsta mánuði en nú og að 12 mánaða verðbólgan fari þá úr 8,7% nú og upp undir 10%. Það getur varað eitthvað fram á árið, en mun þó ráðast af þróun krónunnar. Þetta verðbólguskot mun síðan væntanlega ganga tiltölulega snögglega yfir, jafnvel á um sex mánuðum, og eftir það mun verðbólgan lækka og verðbólgumarkmið Seðlabankans, 2,5%, nást rétt eftir næsta ár.“