Seðlabankinn leggi gildru fyrir spákaupmennina?

Sé raunin sú að óprúttnir spákaupmenn reyni vísvitandi að þrýsta niður gengi krónunnar og íslenskra hlutabréfa er hugsanlegt að hægt sé að leggja fyrir slíka kóna gildru, að sögn blaðamanns Financial Times að því er fram kemur í grein sem birt er í blaðinu.

David Ibison var árið 1998 fréttastjóri viðskiptafrétta blaðsins South China Morning Post, sem gefið var út á ensku í Hong Kong. Svæðið hafði þá nýlega horfið undan breskri stjórn og undir kínverska. Í kjölfarið sætti gjaldmiðill Hong Kong, dollarinn, árásum spákaupmanna og hlutabréfamarkaður landsins sömuleiðis.

Gengi Hong Kong-dollarans var tengt við gengi Bandaríkjadals og höfðu spákaupmennirnir uppgötvað leiðir til að misnota þessa tengingu til að þrýsta niður gengi bæði Hong Kong-dollarans og þarlendra hlutabréfa. Græddu spákaupmennirnir á því að veðja á lækkun hlutabréfanna, sem á viðskiptamáli kallast að skortselja.

Telur Ibison Seðlabanka Íslands geta lært af því hvernig seðlabanki Hong Kong tók á þessum vanda.

Bankinn gerði á skömmum tíma stórinnkaup á þarlendum hlutabréfum, að andvirði um 8% af heildarvirði félaga í kauphöllinni í Hong Kong, og þrýsti þar með verði hlutabréfa upp. Samtímis greip bankinn inn í gjaldeyrismarkaðinn með svipuðum afleiðingum og gerði lýðum ljóst að hann væri reiðubúinn að gera slíkt aftur. Þeir spákaupmenn sem höfðu skortselt dollarann eða hlutabréf í Hong Kong stórtöpuðu þegar gjaldmiðilinn og hlutabréfin hækkuðu og fljótlega hættu árásir spákaupmannanna.

Markaðsmisnotkun
Ibison segir að þótt aðstæður í Hong Kong árið 1998 og á Íslandi nú séu ekki þær sömu séu til staðar möguleikar fyrir spákaupmenn að græða á því að leika á markaðinn. Segir hann að eftirmarkaður með skuldabréf íslensku viðskiptabankanna sé lítill og velta með bréfin ekki mikil. Við slíkar aðstæður sé hægt að þrýsta skuldatryggingarálaginu á bréfin upp og veikja þar með trú fjárfesta á bönkunum sjálfum. Segir hann að tryggingarálagið nú sé miklu hærra en fjárhagsleg staða bankanna gefi ástæðu til og geti það bent til þess að markaðsmisnotkun sé um að kenna. Spákaupmennirnir geti með öðrum orðum notað eftirmarkaðinn til að þrýsta hlutabréfaverði bankanna niður og græða á því að skortselja hlutabréfin.

Veltir hann því upp þeirri spurningu hvort hægt sé að leggja fyrir spákaupmennina gildru líkt og gert var í Hong Kong fyrir áratug með kaupum yfirvalda á hlutabréfum í kauphöll.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka