Í febrúarmánuði voru fluttar út vörur fyrir 19,5 milljarða króna og inn fyrir tæpa 32 milljarða króna, samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni. Vöruskiptin í febrúar, reiknuð á fob verðmæti, voru því óhagstæð um 12,5 milljarða króna. Í febrúar 2007 voru vöruskiptin óhagstæð um 5,5 milljarða króna á sama gengi.
Fyrstu tvo mánuðina 2008 voru fluttar út vörur fyrir 43,7 milljarða króna en inn fyrir 65,6 milljarða króna. Halli var á vöruskiptunum við útlönd, reiknað á fob verðmæti, sem nam tæpum 22 milljörðum en á sama tíma árið áður voru þau óhagstæð um 8,3 milljarða á sama gengi. Vöruskiptajöfnuðurinn var því 13,6 milljörðum króna óhagstæðari en á sama tíma árið áður.
Fyrstu tvo mánuði ársins 2008 var verðmæti vöruútflutnings 8,9 milljörðum eða 17% minna á föstu gengi en á sama tíma árið áður. Sjávarafurðir voru 45% alls útflutnings og var verðmæti þeirra 7,6% minna en á sama tíma árið áður. Útfluttar iðnaðarvörur voru 49% alls útflutnings og var verðmæti þeirra 0,3% meira en árið áður. Mestur samdráttur varð í útflutningi skipa og flugvéla en einnig dróst útflutningur á áli saman.
Fyrstu tvo mánuði ársins 2008 var verðmæti vöruinnflutnings 4,7 milljörðum eða 7,7% meira á föstu gengi en á sama tíma árið áður. Mest aukning varð í innflutningi á fólksbílum og eldsneyti og smurolíu en á móti kom samdráttur í innflutningi á flugvélum og fjárfestingavöru.