Dálkahöfundur í Financial Times, Wolfgang Munchau, ritar í grein í gær að illkvittinn orðrómur um íslenskt efnahagslíf sé ekki réttlætanlegur. Í greininni kveður við öllu jákvæðari tón en sést hefur í umfjöllun erlendra fjölmiðla um Ísland að undanförnu. Telur Munchau meiri ástæðu fyrir alþjóðlega fjárfesta til að hafa áhyggjur af aukinni verðbólgu í Bandaríkjunum eða samdrætti í Bretlandi heldur en Íslandi.
Munchau telur ýmsa hagvísa sýna að íslenskt hagkerfi sé traust, m.a. vel menntað og sveigjanlegt vinnuafl, lítið atvinnuleysi og traustir lífeyrissjóðir. Vandi hagkerfisins sé ekki fjármálageirinn, heldur miklu frekar innra ójafnvægi í efnahagslífinu, sem komi í veg fyrir að peningamálastefnan virki. Er verðtryggingin þar nefnd til sögunnar og hvernig ríkisrekinn íbúðalánasjóður heldur einkareknum bönkum frá þeim markaði.
Vitnar dálkahöfundurinn m.a. til skýrslu Richard Portes og Friðriks Más Baldurssonar, þar sem segi m.a. að íslensku bankarnir standist vel samanburð við sambærilega evrópska banka. Dregur hann í efa að hátt skuldatryggingarálag þeirra sé réttlætanlegt. Væri svo ættu þeir að vera orðnir gjaldþrota.