Alþjóðlega matsfyrirtækið Fitch tilkynnti í dag að það hefði tekið lánshæfismat íslensku viðskiptabankanna þriggja til skoðunar með möguleika á lækkun. Eins er mat á Heritable bankanum, sem er í eigu Landsbankans, og Singer & Friedlander, sem er í eigu Kaupþings, tekið til endurskoðunar.
Fitch gerir ráð fyrir að lánshæfismat bankanna liggi fyrir á næstu vikum eftir nánari skoðun á fjárhagslegum styrk þeirra og áhættustýringu. Hið sama gildir um dótturfélög bankanna, það er Heritable og Singer & Friedlander.
Í tilkynningu Fitch kemur fram að matsfyrirtækið telji að greiðsluhæfi íslensku bankanna sé fullnægjandi í dag þá hafi staðan versnað á fjármálamörkuðum almennt nú og aðgengi að lánsfé versnað. Taka verði tillit til snöggrar lækkunar á gengi krónunnar og aukinni hættu á harðri lendingu í íslensku efnahagslífi sem er líklegt til að hafa talsverð áhrif á stöðu bankanna.
Í tilkynningu Fitch kemur fram að útlit sé fyrir að undirliggjandi hagnaður bankanna þriggja muni versna í ár frá fyrra ári meðal annars vegna niðursveiflunnar í íslensku efnahagslífi og hærri kostnaðar af lánsfé.
Hinsvegar telur Fitch að undirstöður bankanna þriggja séu sterkar. Fjárhagsleg staða sé góð og þeir þurfi ekki að afla sér lausafjár á næstunni. Jafnframt sé fjármögnun þeirra góð og hafi styrkst að undanförnu meðal annars með útgáfu hlutafjár og breytilegum skuldabréfalánum.