Útlit er fyrir að tap stærsta banka Þýskalands, Deutsche Bank, nemi um 2,5 milljörðum evra, 304 milljörðum króna, á fyrsta ársfjórðungi. Skýrist tapið aðallega af mun erfiðari aðstæðum á fjármálamörkuðum heldur en áður var talið í kjölfar erfiðleika á fasteignalánamarkaði í Bandaríkjunum.
Að sögn Josef Ackermann, forstjóra Deutsche Bank, er þetta í fyrsta skipti sem bankinn er rekinn með verulegu tapi. Hlutabréf bankans lækkuðu í Kauphöllinni í Frankfurt eftir að afkomuviðvörunin var birt.
Stjórnarformaður UBS segir af sér
En Deutsche Bank var ekki eini bankinn sem gaf út afkomuviðvörun í morgunsárið í Evrópu. Stærsti banki Sviss, UBS, tilkynnti í morgun um frekari afskriftir og tap af fasteignalánum í Bandaríkjunum, eða alls 19 milljarða Bandaríkjadala.
Nam tap UBS á fyrsta ársfjórðungi 12 milljörðum svissneskra franka, 926 milljarða króna og hefur stjórnarformaður UBS, Marcel Ospel, ákveðið að segja af sér.
UBS þurfti að afskrifa 16 milljarða svissneskra franka á seinni hluta ársins 2007 og bætast afskriftirnar nú við þá fjárhæð.