Ingimundur Friðriksson, Seðlabankastjóri, segir í viðtali við Bloomberg að efnahagslífið á Íslandi sé stöðugt og staða bankanna einnig. Bankarnir hafi hins vegar fundið fyrir ástandinu á fjármálamörkuðum líkt og aðrir bankar í heiminum. Þess beri þó að gæta að íslensku bankarnir hafi ekki þurft að afskrifa vegna undirmálslána.
Enginn eitraður úrgangur í farteskinu
Haft er eftir Richard Portes, prófessor við London Business School og einn skýrsluhöfunda Viðskiptaráðs á síðasta ári um íslenskt efnahagslíf, í sömu grein að bankarnir eigi að geta stýrt út úr þeim ólgusjó sem nú steðji að. Það sem veiti íslensku bönkunum sérstöðu sé að þeir keyptu ekkert rusl og eigi því engan eitraðan úrgang.
Bloomberg fjallar um lækkun á gengi krónunnar að undanförnu og þá hækkun sem orðið hefur á gjaldeyrismarkaði í dag. Segir Ingimundur að Seðlabankinn geri ráð fyrir að krónan eigi eftir að styrkjast enn frekar. Ekki sé hægt að segja nákvæmlega um hvenær það gerist, einungis tíminn leiði það í ljós en ljóst sé að það muni gerast.