Útflutningur á áli jókst um rúmlega 60% í mars miðað við sama mánuð í fyrra. Þau tæknilegu vandamál sem tafið hafa aukningu framleiðslu Alcoa Fjarðaáls að undanförnu er nú að mestu leyst og því má gera ráð fyrir að álútflutningur verði mun meiri þegar framleiðslugeta Fjarðaáls kemst á fullt stig innan skamms, samkvæmt vefriti fjármálaráðuneytisins.
„Þegar rýnt er í undirliði innflutningsins ber fyrst að nefna að innflutningur fjárfestingarvara (annarra en flutningatækja) er mjög hár í mánuðinum og hefur ekki verið hærri síðan í júlí 2006. Innflutningur hrá- og rekstrarvara er einnig hár í mars og hefur ekki verið hærri í einum mánuði, að desember sl. undanskildum. Aukning í innflutningi neysluvara í mars þarf ekki að koma á óvart og er í samræmi við svokölluð J-kúrfu áhrif. Samkvæmt þeim eykst verðmæti innflutnings í kjölfar gengislækkunar til að byrja með, en þegar fram í sækir hefur hærra verð áhrif til að draga úr magni innflutnings.
Á næstu misserum má búast við að innflutningur varanlegra og
hálf-varanlegraneysluvara
dragist saman að magni til samfara hækkandi verði en að innflutningsverðmæti nauðsynjavara
eins og matvöru aukist. Því er líklegt að vöruskiptahallinn dragist saman á komandi
mánuðum og snúist í afgang þegar líða tekur á árið,” samkvæmt vefritinu.
Eins og greint var frá fyrr í dag nam útflutningur bráðabirgðatölum fyrir mars fob tæpum 31,2 milljörðum króna og innflutningur fob 36,4 milljörðum króna. Vöruskiptin í mars, reiknuð á fob verðmæti, voru því óhagstæð um 5,3 milljarða króna samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands.