Breska blaðið Sunday Telegraph segir í dag, að hugsanlega þurfi Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn að koma Íslandi til aðstoðar ef allt fer á versta veg vegna lausafjárkreppunnar.
Blaðið segir, að í augum flestra sé Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn úrelt stofnun en hugsanlega muni hann ganga í endurnýjun lífdaga vegna lausafjárkreppunnar. „Það yrði ólíklegasta upprisan frá dögum Lasarusar og sú óhugnanlegasta frá því Rambo snéri aftur," segir blaðið.
Sunday Telegraph hefur eftir sérfræðingum, að ef lánsfjárkreppan dýpki sé möguleiki á að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn verði beðinn um að leggja Íslandi lið og það yrði í fyrsta skipti sem sjóðurinn komi þróuðu ríki til aðstoðar frá því Bretland varð að leita á náðir hans á áttunda áratug síðustu aldar.
Sumir telji jafnvel, að ef gengi Bandaríkjadals lækki til muna muni sjóðurinn þurfa, að veita fé inn í bandaríska hagkerfið.
Jafnvel þótt ekkert af þessu gerist hafi staða Alþjóðagjaldeyrissjóðsins breyst skyndilega og margir líti til hans sem einskonar eftirlitsaðila með alþjóðlega fjármálakerfinu. Vísað er m.a. til þess, að Dominique Strauss-Kahn, nýr framkvæmdastjóri sjóðsins, hafi endurskipulagt starfsemina og fært hana til nútímalegra horfs.
Blaðið segir, að vandamál Íslands séu að sumu leyti einskonar táknmynd lausafjárkreppunnar. Viðskiptahalli landsins sé gríðarlegur vegna þess að Íslendingar hafi tekið mikil erlend lán um árabil. Þá sé íslenska bankakerfið, sem einnig hafi tekið mikið af lánum, átta sinnum stærra en hagkerfi landsins. Hrynji bankakerfið sé ólíklegt að íslenski seðlabankinn geti komið því til bjargar.
Nú hafi íslenska krónan hrunið og Seðlabankinn neyðst til að hækka stýrivexti í 15%, sem né neyðaraðgerð í ljósi þess að hagkerfið í heild sé þegar illa statt.
Sunday Telegraph segir, að þegar gjaldmiðill ríkja hafi hrunið hafi Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn þurft að grípa inn í. Það hafi gerst árið 1976 þegar bresk stjórnvöld leituðu til sjóðsins og nú gætu mörg lönd, allt frá Eystrasalti til Bosporussunds hlotið sömu örlög.
„Verði íslenska krónan óstöðug gæti Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn þurft að grípa inn í og veita Seðlabankanum lán til að styrkja gjaldmiðilinn," segir Stephen Lewis, hjá Insinger de Beaufort, við blaðið.
„En hið raunverulega hlutverk sjóðsins kæmi í ljós ef dalurinn lendir í alvarlegum vandræðum. Ef aðgerðir (bandaríska seðlabankans) leiða til þess að dalurinn hrynur væri tímabært fyrir Alþjóðagjaldeyrissjóðinn að koma til bjargar."