Breska blaðið Sunday Times birtir í dag leiðréttingu á frétt sinni frá því fyrir viku síðan þar sem fram kom að breskir sparifjáreigendur væru að taka út af innlánsreikningum Kaupþings og Landsbankans í stórum stíl. Kemur fram í leiðréttingunni að það sé ekki rétt enda hafi vikan á undan verið sú besta hjá Kaupþing í Bretlandi til þessa.
Sagði blaðið að Bretar hefðu í stórum stíl flutt peninga af Icesave reikningi Landsbankans og Kaupthing Edge reikningnum og þaðan yfir á reikninga breskra banka eftir að Seðlabanki Íslands hækkaði stýrivexti þann 25. mars sl.
Í Sunday Times í dag kemur fram að síðasta vikan í mars hafi verið sú besta í sögu Kaupthing Edge frá stofnun og leiðrétti blaðið fréttina með ánægju.
Á föstudag leiðrétti breska dagblaðið Daily Mail sömu frétt.