Breska blaðið Financial Times segir, að almennt sé talið að Seðlabanki Íslands muni tilkynna, hugsanlega á morgun þegar ákvörðun um vexti verður kynnt, að gert hafi verið samkomulag við norræna seðlabanka um stuðning við bankakerfið ef þörf krefur.
Blaðið hefur einnig eftir Geir H. Haarde, forsætisráðherra, að íslenska ríkisstjórnin geti auðveldlega gefið út skuldabréf til að styrkja gjaldeyrisvaraforðann.
Segir blaðið, að þessar aðgerðir muni tryggja að Seðlabankinn geti veitt neyðarlán bæði í íslenskum krónum og erlendum gjaldeyri.
Geir segir í samtali við Bloomberg fréttastofuna í dag, að engin þörf verði á að koma íslensku bönkunum til bjargar, en íslenska ríkisstjórnin myndi bregðast við slíku með sama hætti og aðrar ríkisstjórnir. „Við höfum nægan styrk, sem ríkisstjórn og í Seðlabankanum," segir hann.
Geir segir að Ísland þurfi þó væntanlega að auka gjaldeyrisvarasjóðinn og það sé verið að skoða. Hann vill þó ekki nefna neinar tölur.