Allianz inn á íbúðalánamarkað

Við erum að vinna að því að koma inn á íslenska markaðinn með húsnæðislán en það er þó enn í undirbúningi.“

Þetta segir Jürgen-Bernd Schiemann, framkvæmdastjóri hjá þýska tryggingafélaginu Allianz, en hann ber m.a. ábyrgð á starfsemi fyrirtækisins hér á landi. Að sögn Schiemann er fyrirtækið að skoða þann möguleika að hasla sér völl á íslenskum íbúðalánamarkaði en hann segir húsnæðislán Allianz vera þannig að vextir á láninu verði fastir í 10 ár og að þeir verði óverðtryggðir.

„Hægt verður að greiða lánið niður á tvennan máta, annars vegar með hefðbundnum afborgunum þar sem afborgun og vextir greiðast samtímis mánaðarlega en einnig með því að greiða eingöngu vexti mánaðarlega. Lánþegi kaupir þá líftryggingu hjá Allianz á Íslandi og hún verður síðan notuð til þess að greiða höfuðstól lánsins. Þetta er nýtt á íslenska markaðnum eftir því sem ég kemst næst en Allianz hefur notað þessa viðskiptahugmynd í öllum öðrum starfslöndum sínum í Evrópu og með góðum árangri,“ segir Schiemann.

Aðspurður hvort hann sé ekki hræddur um að íslenskir neytendur verði tortryggnir í garð þessara lána þar sem Allianz sé erlent fyrirtæki og neytendur muni óttast að það muni forða sér ef gefa tekur á bátinn segir Schiemann svo ekki vera. „Allianz hefur verið á íslenskum markaði frá árinu 1994 og ég hef verið ábyrgur fyrir starfseminni allt frá upphafi. Starfsemi okkar hérna hefur stöðugt vaxið og nú erum við með yfir 14 þúsund viðskiptavini og iðgjöld á ári nema um 20 milljónum evra þannig að við teljum okkur þekkja þær aðstæður sem hér ríkja ágætlega og við munum standa við okkar.“

900 milljarða hagnaður

„Aðalvara okkar er lífeyristrygging sem ber vexti. Við bjóðum hana bæði einkaaðilum og fyrirtækjum vegna lífeyrisskuldbindinga þeirra. Hugmyndin er sú að við gerum samning við viðskiptavin okkar og seljum honum tryggingu. Hann greiðir fast iðgjald en fær á þeirri upphæð sem hann greiðir fasta ávöxtun. Við ábyrgjumst bæði að viðskiptavinurinn fái iðgjaldið endurgreitt þegar þar að kemur og að sama skapi ábyrgjumst við lágmarksávöxtun. Ennfremur ábyrgjumst við að viðskiptavinurinn fái lífeyri svo lengi sem hann lifir.

Ástæða þess að við getum þetta er sú að við höfum 130 ára reynslu af því að reikna út iðgjöld og lífslíkur og að sjálfsögðu einnig í því að fjárfesta því fé sem við fáum á árangursríkan hátt. Markmið okkar er ávallt að fjárfesta féð þannig að viðskiptavinurinn hagnist á því. Kerfið sem við byggjum á felur í raun í sér að við deilum hagnaðinum með viðskiptavininum og það er það sem felst í vörunni,“ segir hann og bætir við: „Sú staða sem nú er á Íslandi þar sem peningamarkaðurinn er eldfimur sýnir hversu mikilvægt það er að hafa ábyrgðir af því tagi sem við bjóðum.“

Afbragðs tækifæri

„Lán af því tagi sem við hyggjumst bjóða þekkjast ekki á Íslandi í dag en eru mjög hagstæð lánþegum sem vita alltaf hvað þeir þurfa að greiða mikið og því tel ég afbragðs tækifæri vera í þessu fyrir okkur.“

Þið ábyrgist að þrátt fyrir að stýrivextir hækki í Evrópu muni vextirnir á láninu ekki hækka?

„Vextirnir eru fastir í einhvern fyrirfram ákveðinn tíma, t.d. tíu ár og að því loknu eru þeir endurskoðaðir en þýski markaðurinn hefur verið mjög stöðugur á undanförnum árum þannig að vaxtastigið hjá okkur eru lágt og hefur ekki breyst mikið.“

Aðspurður hvernig staðan á íslenskum íbúðalánamarkaði komi sér sem útlendingi fyrir sjónir segir Schiemann verðtryggingarfyrirkomulagið sem hér ríkir koma sér sem Þjóðverja spánskt fyrir sjónir. „Við þekkjum það fyrirkomulag ekki. Við þekkjum það kerfi sem Allianz hyggst setja á markað hér og það er grundvöllurinn fyrir því hvernig Þjóðverjar skoða húsnæðislánamarkaðinn. Ég gæti ekki ímyndað mér að verðtrygging væri árangursrík í Þýskalandi en ég tel það áhugavert að sjá hvernig ábyrgðakerfið virkar hér en þið eruð auðvitað vön verðtryggingunni hér,“ segir Schiemann sem að lokum segist kunna mjög vel við Ísland.

„Ég hef verið hér meira en 40 sinnum og ég elska landið og þjóðina. Ég á orðið fullt af vinum hér á landi og nýt þess í hvert skipti sem ég kem hingað.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK