Hagnaður af rekstri Smyril Line, sem gerir út ferjuna Norrænu, nam 2,1 milljón danskra króna á síðasta ári, jafnvirði 32 milljóna íslenskra króna. Stjórn félagsins er samt ekki ánægð með uppgjörið og segir, að rysjótt veðurfar sl. haust og í vetur og bilanir hafi valdið vandræðum.
Í tilkynningu, sem færeyska útvarpið vitnar til, segir stjórn Smyril Line að þjónustustigið á síðasta ári hafi því ekki verið viðunandi. Ofan á allt hafi olíuverð síðan hækkað mikið og niðurstaðan hafi verið verri afkoma en áætlað var. Árið 2006 var 1,6 milljóna danskra króna hagnaður af rekstrinum eftir taprekstur í nokkur ár.
Aðalástæðan fyrir rekstarafganginum var einkum sá að eignarhlutur Smyril Line í öðru hlutafélagi hækkaði í verði.