Bankastjórn Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að hækka stýrivexti bankans um 0,5% og verða þeir 15,5% eftir hækkunina. Bankinn hækkaði stýrivexti síðast þann 25, mars sl. um 1,25%, á auka vaxtaákvörðunardegi. Er það mesta hækkun stýrivaxta síðan núverandi fyrirkomulag peningamála var tekið upp. Hefur bankinn því hækkað stýrivexti um 1,75% á tæpum þremur vikum.
Þetta er 21. vaxtahækkun Seðlabankans í röð frá því bankinn byrjaði að hækka vexti á miðju ári 2004. Stýrivextir bankans eru eins og áður sagði nú 15,5%, en voru 5,16% fyrir fjórum árum.
Klukkan 11 verður fréttamannafundur bankastjórnar sendur út á vef bankans. Þar verða færð rök fyrir vaxtaákvörðun og efni Peningamála kynnt. Næsti vaxtaákvörðunardagur bankastjórnar Seðlabanka Íslands er 22. maí nk.
Greiningardeildir Glitnis og Landsbankans spáðu því að stýrivextir yrðu hækkaðir um 0,5% nú en Greiningardeild Kaupþings spáði því að stýrivöxtum yrði haldið óbreyttum nú.