Í kjölfar vaxtahækkunar Seðlabankans um 0,5 prósentur í 15,5% eru vextir nú hvergi hærri í heiminum meðal ríkja með þróaðan fjármálamarkað. Ísland hefur nú skotið Tyrklandi ref fyrir rass en vextir hafa um langt skeið verið hæstir þar. Nú eru vextirnir í Tyrklandi 15,25% og líklegt er að enn muni bilið breikka á milli stýrivaxta Tyrklands og Íslands á næstu mánuðum þar sem Seðlabanki Tyrklands er í lækkunarferli og hefur alls lækkað stýrivexti sex sinnum síðan í september síðastliðnum, samkvæmt Morgunkorni Greiningar Glitnis.
„Búist er við að vextir muni lækka enn frekar á næstu mánuðum í Tyrklandi en við gerum ráð fyrir að stýrivextir haldist óbreyttir hér á landi í 15,5% þar til í haust. Þriðju hæstu vextir í heiminum eru í Brasilíu þar sem vextir eru 11,25% en fast á hæla Brasilíu fylgir S-Afríka þar sem vextir eru 11%. Fimmtu hæstu vextir í heiminum eru í Egyptalandi þar sem vextir eru 9,5%," segir í Morgunkorni Glitnis.