Þjóðarnauðsyn að hemja verðbólgu

Davíð Oddsson
Davíð Oddsson Ómar Óskarsson

Davíð Oddsson, formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands, segir að vegna mikilla skulda heimila og fyrirtækja mun gengislækkunin sem orðin er hafa samdráttaráhrif en viðvarandi verðbólga kemur skuldsettum heimilum og fyrirtækjum verst og grefur undan stöðugleika fjármálakerfisins til lengri tíma. „Það er því þjóðarnauðsyn að verðbólga verði hamin."

Þetta kom fram í máli Davíð á fundi með fréttamönnum er hann færði rök fyrir þeirri ákvörðun bankastjórnar Seðlabanka Íslands að hækka stýrivexti bankans um 0,5 prósentur í 15,5%. Vaxtahækkunin fylgir í kjölfar 1,25 prósentu hækkunar 25. mars sl.

Verðbólgan 2% meiri en spáð var

„Verðbólga á fyrsta fjórðungi ársins varð 2 prósentum meiri en spáð var í nóvember sl. og horfur eru á að hún aukist enn í kjölfar þeirrar gengislækkunar sem orðið hefur á undanförnum vikum áður en hún tekur að lækka á ný.

Vaxtahækkun 25. mars er fylgt eftir með þeirri ákvörðun sem nú er kynnt þar sem verðbólguvæntingar eru enn mjög miklar. Þær hafa vaxið og eru nú meiri en um langa hríð. Þær verða að hjaðna.

Þjóðhagsspá sem birtist í Peningamálum nú bendir til þess að samdráttur verði í efnahagslífinu á spátímanum. Sú þróun er í raun óhjákvæmileg aðlögun þjóðarbúskaparins eftir margra ára ójafnvægi. Þrátt fyrir það verður meðalhagvöxtur áranna 2005 til 2010 viðunandi. Dregið hefur úr innstreymi fjármagns og fjármögnun viðskiptahallans verður dýrari en undanfarin ár.

Forsenda þess að beita megi peningastefnunni til þess að bregðast við samdrætti í efnahagslífinu er að verðbólga sé hófleg. Raungengi fór nærri sögulegu lágmarki og gengi krónunnar er óæskilega lágt. Aðlögun raungengis að langtímajafnvægi getur annað hvort gerst með hækkun gengis eða verðlags. Varanleg gengislækkun við núverandi aðstæður skilar sér fljótt í hærra verðlagi.

Spenna er enn á vinnumarkaði og framleiðsluspenna veruleg. Æskilegt er að gengi krónunnar styrkist frá þeirri dýfu sem það tók í mars. Vaxtahækkunin 25. mars, ásamt öðrum aðgerðum sem þá voru kynntar, studdi við gengi krónunnar. Það hefur hækkað nokkuð síðan," segir Davíð.

Vaxtahækkun ein og sér leysir ekki vandann

Vaxtahækkun ein og sér leysir ekki vandann sem skapast hefur
á gjaldeyrisskiptamarkaði, að sögn Davíðs. „Aukin útgáfa tryggra skuldabréfa sem eru aðgengileg erlendum fjárfestum ætti hins vegar að opna aðra farvegi gjaldeyrisinnstreymis.

Brýnasta verkefni Seðlabankans er að ná verðbólgumarkmiðinu eins fljótt og auðið er. Miklir eftirspurnarhnykkir undanfarinna ára og óvenjuleg skilyrði á alþjóðlegum fjármálamörkuðum hafa tafið það verk. Engin efni eru til þess að gefa eftir í þeirri baráttu,"  segir Davíð.

Að sögn Davíðs er ekki óeðlilegt að gjaldeyrisforði Seðlabankans verði tvöfaldaður. Það megi hins vegar ekki gleyma því að það kostar stórfé að halda úti stórum gjaldeyrisvarasjóði.

Hann segir afar óvarlegt að telja að þeir erfiðleikar sem ríkja á alþjóðlegum fjármálamörkuðum séu að baki. Þetta kom fram í máli Davíðs er fréttamenn spurðu út í ákvörðun Seðlabankans um að hækka stýrivexti.

Að sögn Davíðs hafa íslensku bankarnir sýnt afar góða afkomu og bendir allt til þess að þeir hafi ekki verið of áhættusæknir líkt og erlendir fjölmiðlar hafa haldið fram. Segir Davíð að Seðlabankinn sé ekki á leiðinni til að fá lánaða peninga fyrir bankana líkt og ráðamenn þjóðarinnar vilji enda telji Seðlabankinn að bankarnir séu það vel staddir. 


mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK