Fjármálaráðherrar sjö helstu iðnríkja heims samþykktu í dag áætlun sem miðar að því að koma í veg fyrir að erfiðleikar sem komu upp á bandarískum fjármála- og fasteignamarkaði á síðasta ári og breiddust út um heiminn geti komið upp aftur.
Í yfirlýsingu ráðherra G-7 ríkjanna kemur fram að stefnt sé að því að auka gegnsæi á mörkuðum og skerpa á þeim reglum sem gilda um viðbrögð stjórnvalda við aðkallandi vanda á fjármálamörkuðum. Með þessu verði hægt að auka traust á fjármálamörkuðum og virkni þeirra.
Fjármálaráðherra Bandaríkjanna, Henry Paulson og Ben Bernanke, formaður bankastjórnar Seðlabanka Bandaríkjanna, stýrðu fundi fjármálaráðherranna í dag en auk Bandaríkjanna eru Japan, Þýskaland, Bretland, Ítalía, Frakkland og Kanada aðilar að G-7. Á morgun hefst fundur fulltrúa 185 ríkja sem eiga aðild að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Alþjóðabankanum. Meðal þeirra sem sitja fundinn um helgina er Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra.
Sigið hefur á ógæfuhliðina á fjármálamörkuðum heimsins frá síðasta fundi fjármálaráðherra iðnríkjanna sjö í október í Washington. Telja margir hagfræðingar að samdráttarskeið sé hafið í bandarísku efnahagslífi og auknar líkur eru á samdrætti víða um heim, samkvæmt upplýsingum frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum.
En á meðan fjármálaráðherrarnir ræddu í dag um hvernig væri best að bregðast við vanda fjármálamarkaða í framtíðinni lækkaði Dow Jones vísitalan um rúmlega 250 stig.
Á myndinni eru fjármálaráðherrarnir James Flaherty Kanada, Christine Lagrade Frakklandi, Peer Steinbruck Þýskalandi, Henry Paulson Bandaríkjunum, Tommaso Padoa-Schioppa Ítalíu, Fukushiro Nukaga Japan og Alistair Darling Bretlandi.
Jean-Claude Juncker fyrir hönd myntbandalags Evrópu. Dominique Strauss-Kahn Alþjóða gjaldeyrissjóðnum, Mark Carney Seðlabanka Kanada, Christian Noyer Frakklandi, Axel A. Weber Þýskalandi, Ben Beranake Bandaríkjunum, Mario Draghi Ítalíu, Masaaki Shirakawa Japan, Mervyn King Englandsbanka, Jean-Claude Trichet Seðlabankastjóri Evrópu og yfirmaður Alþjóðabankans, Robert Zoellick.