Dregur úr greiðslukortaveltu

AP

Greiðslukortavelta í marsmánuði nam rúmum 55 milljörðum króna samkvæmt tölum frá Seðlabanka Íslands. Í febrúar var veltan 57 milljarðar króna.  Af því var velta vegna kreditkortanotkunar 24,7 milljarðar króna en velta með debetkort nam 20,6 milljörðum króna í mánuðinum.

Í Morgunkorni Glitnis kemur fram að eftir mikla neyslugleði undanfarin misseri virðast lakari efnahagshorfur, óvissa á fjármálamörkuðum og aukin svartsýni neytenda hafa hvatt heimilin til aukins aðhalds í marsmánuði ef marka má tölur yfir greiðslukortaveltu.

„Raunþróun kreditkortanotkunar, að viðbættri notkun debetkorta í innlendum verslunum, hefur undanfarin ár gefið allglögga mynd af þróun einkaneyslu. Í þessari þróun hefur verið allskarpur viðsnúningur undanfarna mánuði, og í mars reyndist raunvöxtur slíkrar kortanotkunar 1% á milli ára og hefur hann ekki verið hægari undanfarið ár.

Á fyrsta fjórðungi ársins var raunvöxtur kortanotkunar, skilgreindur með ofangreindum hætti, 4% að meðaltali.

Greitt er fyrir stærstan hluta einkaneyslu með greiðslukortum og gefa þessar tölur því ágæta mynd af þróun hennar, en einkaneysla nam á síðasta ári um 60% af vergri landsframleiðslu og hefur þróun hennar því mikil áhrif á hagvöxt.

Miðað við þessar tölur má ætla að nokkuð hafi hægt á eftirspurn heimilanna á 1. fjórðungi ársins. Aðrar vísbendingar um einkaneyslu á borð við væntingavísitölu Gallups hafa einnig gefið til kynna að heldur væri að draga úr þeirri miklu eftirspurn sem ríkt hefur í hagkerfinu. Þá er gengislækkun krónunnar í marsmánuði  líkleg til að draga úr eftirspurn innflutts neysluvarnings, en nokkrir af undirliðum einkaneyslu sýna umtalsverða fylgni við gengi krónunnar," samkvæmt Morgunkorni Glitnis.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK