Bandaríska flugfélagið Delta Air Lines tilkynnti í kvöld, að náðst hefði samkomulag við flugfélagið Northwest Airlines um að Delta yfirtaki Northwest. Við sameininguna verður til stærsta flugfélag heims. Stjórnir félaganna samþykktu samkomulagið í kvöld.
Sameinað félag er metið á 17,7 milljarða dala, jafnvirði 1315 milljarða króna. Höfuðstöðvarnar verða í Atlanta í Georgíu og Richard Anderson, forstjóri Delta, mun stýra sameinuðu fyrirtæki.
Flugfélögin fóru bæði í greiðslustöðvun og endurskipulagningu, sem lauk á síðasta ári. Nú eru bæði félögin rekin með tapi en staða þeirra er þó mun sterkari en fjögurra lítilla flugfélaga, sem hætt hafa starfsemi á síðustu vikum og verið tekin til gjaldþrotaskipa.
Sameiningin þarf samþykki samkeppnisyfirvalda og ljóst er, að erfitt verður að sameina starfsemina.