Umfang fjármálakerfisins hefur vaxið hratt

Eignir íslenskra banka voru stærra hlutfall af landsframleiðslu árið 2005 en í flestum öðrum OECD ríkjum en voru í kringum meðaltal landanna árið 2001. Frá árinu 2005 hafa eignir bankanna sem hlutfall af landsframleiðslu rokið upp, frá tvöfaldri landsframleiðslu árið 2005 í áttfalda landsframleiðslu í lok ársins 2007.  

Þetta kemur m.a. fram í endurskoðaðri þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins, sem birt var í dag. Fjármálageirinn á Íslandi hefur stækkað mjög hratt á undanförnum árum en á fyrstu árum aldarinnar nýttu bankarnir sér tækifæri sem fólust í góðu lánshæfismati og miklu alþjóðlegu framboði á fjármagni til að skapa sóknarfæri á erlendum mörkuðum, einkum á Norðurlöndum og í Bretlandi. 

Segir fjármálaráðuneytið, að stærð fjármálageirans í íslensku efnahagslífi hafi aukist í samræmi við útrás bankanna og sé umfang fjármálafyrirtækja hér á landi orðið sambærilegt við mikla fjármálastarfsemi í löndum á borð við Sviss, Lúxemborg, Bandaríkin og Bretland. Ef heildareignir bankakerfisins séu hins vetar teknar inn í reikninginn megi hins vegar ætla að Sviss, Holland og Hong Kong séu ofar á listanum.

Virði innstæða fjármálakerfisins reiknað sem hlutfall af landsframleiðslu var um 80% af vergri landsframleiðslu árið 2006, sem er heldur lítið miðað við 103% meðaltal OECD landa það ár. Fjármálaráðuneytið segir, að undanfarin tvö ár hafi bankarnir aukið fjármögnun byggða á innstæðum og sé áætlað að innstæður nemi um 140% af landsframleiðslu árið 2007 sem sé með því mesta innan OECD ríkjanna en alþjóðlegur samanburður sé ekki tiltækur fyrir það ár eins og sakir standa. Hátt innlánahlutfall megi rekja til sóknar bankanna á innlánamarkaði erlendis, einkum í Bretlandi.

Ráðuneytið segir, að samkvæmt ofangreindum mælikvörðum sé ljóst, að fjármálageirinn á Íslandi sé orðinn töluvert umsvifamikill í samanburði við önnur lönd. Þó sé enn nokkuð í land til að Ísland teljist alþjóðleg fjármálamiðstöð á borð við Lúxemborg eða Sviss en til þess þurfi alþjóðleg vídd fjármálakerfisins að breikka með innkomu erlendra fjármálafyrirtækja hér á landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK