Greiningardeild Kaupþings spáir 1,7% hækkun á vísitölu neysluverðs í apríl. Gangi spáin eftir mun tólf mánaða verðbólga mælast 10% samanborið við 8,7% verðbólgu í mars.
Bankinn segir, að svipaðir þættir drífi áfram verðbólgu og að undanförnu: veiking krónu ásamt verðhækkun á eldsneyti og hrávörum. Þá er gert ráð fyrir að húsnæðisliðurinn haldi áfram að hækka vegna hækkandi raunvaxta nýrra íbúðalána á síðasta ári. Markaðsverð húsnæðis muni áfram hafa óveruleg áhrif á verðbólgutölur.
Greiningardeild gerir ráð fyrir að verðbólga mælist áfram há í maímælingu Hagstofunnar. Í sumar taki hins vegar að draga úr verðbólguhraðanum, þegar áhrif yfirskots krónunnar hafi gengið yfir og húsnæðisliðurinn lækkar.