Hugsanlegt er að Íbúðalánasjóður geti lækkað útlánsvexti í kjölfar útboðs á íbúðabréfum í dag. Sjóðurinn hyggst taka tilboðum í allt að 8 milljarða króna og Greining Glitnis segir í Morgunkorni sínu, að þróun á ávöxtunarkröfu frá því að sjóðurinn efndi síðast til útboðs bendir til að sjóðurinn muni lækka vexti á útlánum sínum.
Útlánavextir Íbúðalánasjóðs eru nú 5,5% með uppgreiðsluákvæði og 5,75% án uppgreiðslugjalds. Glitnir segir, að sjóðurinn sé líklegur til að geta lækkað vexti um 0,4%-0,9% í kjölfar útboðsins í dag en 0,5%-0,6% lækkun sé líkleg.