Gunnar Smári Egilsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Dagsbrun Media, sem m.a. gefur út Nyhedsavisen í Danmörku, segist reikna með því að róðurinn geti orðið erfiður hjá fríblöðum á næstu misserum vegna ástandsins á fjármála- og auglýsingamörkuðum.
„Það verður nokkrum fríblöðum lokað en það þýðir ekki, að hugmyndafræðin á bak við blöðin sé röng," segir Gunnar Smári við Berlingske Tidende í dag.
Gunnar Smári segir að hann hafi sjálfur tekið þá ákvörðun að hætta störfum hjá Dagsbrun Media. Hann hafi fengið áhuga á nýjum hlutum, sé í leyfi og íhugi hvað hann ætli að taka sér fyrir hendur.
Morten Lund, nýr aðaleigandi Dagsbrun Media, segir að Gunnar Smári sé ótrúlegur hugmyndasmiður og í raun faðir hugmyndafræðinnar á bak við Nyhedsavisen.
Lund stýrir nú Dagsbrun Media ásamt Lars Lindstrøm, sem áður var fjármálastjóri félagsins. Svenn Dam er áfram framkvæmdastjóri 365 Media Scandinavia og stjórnarformaður Nyhedsavisen og Morten Nissen Nielsen er framkvæmdastjóri blaðsins.