Alþjóðlega matsfyrirtækið Fitch Ratings gaf í dag út skýrslu um Ísland, undir yfirskriftinni Iceland, Credit Update. Fram kemur í Vegvísi Greiningardeildar Landsbankans, að í skýrslunni sé núverandi lánshæfiseinkunn íslenska ríkisins rökstudd og hvað geti orðið til þess að einkunnin verði lækkuð.
Landsbankinn segir að Fitch bendi á að hlutfallsleg stærð bankakerfisins veki upp spurningar um getu stjórnvalda til að standa við yfirlýsingar um stuðning við bankakerfið ef nauðsyn krefur, en tímasetning stuðningsaðgerða skiptir þá öllu. Ef ytri skilyrði versna enn og líkurnar á stuðningi ríkisins aukast, hefði það neikvæð áhrif á lánshæfiseinkunn ríkisins. Tímanlegar aðgerðir stjórnvalda gætu aukið tiltrú á kerfinu, án þess að stofna lánshæfi ríkisins í hættu.