Það skiptust á skin og skúrir á Wall Street í dag en svo virðist sem það sé að draga úr atvinnuleysi og Ford kynnti góða afkomu á fyrsta ársfjórðungi. Hins vegar dró úr gleði fjárfesta þegar greint var frá því að sala á nýju íbúðahúsnæði hafi ekki verið jafn lítil og í mars í rúm 16 ár. Eins höfðu afkomuviðvaranir frá Amazon.com Inc. og Starbucks sitt að segja.
Verð á hráolíu lækkar og gengi Bandaríkjadals hækkar
Á sama tíma lækkaði verð á olíu og gengi Bandaríkjadals hækkaði gagnvart helstu myntum. Hafði þetta jákvæð áhrif á gengi hlutabréfa en dalurinn hefur ekki verið jafn hár síðan í janúarmánuði.
Í byrjun dags lækkaði Dow Jones vísitalan en tók síðan kipp upp á við og við lokun markaða í kvöld nam hækkun hennar 0,67% og er hún 12.848,95 stig. Standard & Poor's 500 vísitalan hækkaði um 0,64% og er 1.388,82 stig. Nasdaq hækkaði um 0,99% og er 2.428,92 stig.
Verð á hráolíu er nú 116,06 dalir tunnan sem er lækkun um 2,24 dali tunnan.
Umsóknum atvinnuleysisbætur fækkaði um 33 þúsund í síðustu viku og voru 342 þúsund talsins sem kom mjög á óvart því flestir höfðu spáð því að atvinnulausum myndi fjölga um þrjú þúsund í vikunni.
Sala á nýju íbúðahúsnæði dróst hins vegar saman um 8,5% í mars en alls voru seldar 526 þúsund nýjar eignir í mánuðinum. Hafa þær ekki verið jafn fáar í einum mánuði frá því í október 1991. Jafnframt hefur verð á húsnæði farið lækkaði.
Starbucks lækkar um 11% en Ford hækkar um 12%
Eftir að Amazon gaf út afkomuviðvörun lækkuðu hlutabréf félagsins í verði og nam lækkun dagsins 4,1%. Starbucks gaf út afkomuviðvörun eftir lokun markaða í gær en bréf kaffihúsakeðjunnar lækkuðu um 11% á Wall Street í dag. En Ford gladdi fjárfesta með uppgjöri sínu í dag. Nam hagnaður bílaframleiðandans 100 milljónum dala á fyrsta ársfjórðungi en félagið var rekið með tapi á síðari hluta ársins í fyrra. Hækkuðu hlutabréf Ford um 12% á Wall Street í dag.