Tap Bakkavarar Group nam 12,8 milljónum punda á fyrsta fjórðungi ársins, jafnvirði um 2 milljarða króna, en á sama tíma á síðasta ári var 1,5 milljarða króna hagnaður. Rekstarhagnaður (EBIT) 16 milljónir punda, jafnvirði 2,4 milljarða króna og dróst saman um 37% milli ára. Í tilkynningu frá Bakkavör segir að veltan hafi verið 57,6 milljarðar króna sem er 8% aukning en Ágúst Guðmundsson forstjóri segir niðurstöðurnar vera vonbrigði.
„Erfiðar aðstæður á mörkuðum höfðu mikil áhrif á afkomu félagsins, svo sem áframhaldandi verðhækkanir á hráefni, ásamt umtalsverðri lækkun á gengi breska pundsins gagnvart evru," segir Ágúst í tilkynningu frá félaginu.
Hann segir einnig að reiknað sé með að óvissa vegna núverandi efnahagsástands hafi haft áhrif á sölu á ferskri tilbúinni matvöru í Bretlandi en sala félagsins muni taka við sér að nýju á síðari hluta 2008.
Bakkavör tilkynnti jafnframt í kvöld um kaup á ítalska fyrirtækinu Italpizza, sem sérhæfir sig í framleiðslu á ferskum og frosnum eldbökuðum pítsum. Kaupverðið er sagttrúnaðarmál en kaupin voru fjármögnuð með láni frá Mizuho Corporate Bank Limited.
Italpizza var stofnað árið 1991 og er með 230 starfsmenn í Modena á Norður Ítalíu. Velta fyrirtækisins nam 4,9 milljörðum króna (40 milljónum evra) á árinu 2007. Italpizza verður hluti af Bakkavör Group frá kaupdegi og segir fyrirtækið, að kaupin muni hafa veruleg áhrif á veltu og afkomu af starfsemi félagsins á meginlandi Evrópu. Bakkavör gerir ráð fyrir að salan hjá Italpizza muni aukast um 15% og hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnskostnað muni nema að minnsta kosti 606 milljónum króna.
Þá hefur Bakkavör keypt 45% hlut í La Rose Noire, einum helsta köku- og brauðframleiðanda í Hong Kong. Félagið hefur kauprétt á 45% hlut til viðbótar árið 2010 auk 90% hlutar í starfsemi fyrirtækisins í Kína árið 2011. Kaupverðið er trúnaðarmál en kaupin voru fjármögnuð með láni frá Mizuho Corporate Bank Limited.La Rose Noire sérhæfir sig í framleiðslu á kökum og brauðum fyrir stórmarkaði og fyrirtæki í veitingaþjónustu í Hong Kong og Kína, auk útflutnings ákveðinna vörutegunda til Nýja Sjálands, Taílands, Indlands, Bandaríkjanna og Dubai. Fyrirtækið var upphaflega stofnað í Hong Kong sem smásölubakarí árið 1991 en hóf verksmiðjurekstur árið 1994. Árið 2004 jók fyrirtækið umfang sitt með opnun verksmiðju í Suður-Kína. Fyrirtækið er í dag með um 250 starfsmenn í Hong Kong og 220 í Kína. Velta fyrirtækisins í Hong Kong á síðasta ári nam 920 milljónum króna og tæplega 307 milljónum króna í Kína.
Loks hefur Bakkavör Group gert skiptasamning um 10,9% hlut í Greencore Group, sem er skráð í kauphöllunum á Írlandi og í Lundúnum. Greencore Group er eitt af leiðandi fyrirtækjum Evrópu í framleiðslu á tilbúnum matvælum og hráefni fyrir evrópskan smásölumarkað og matvælaiðnað í Bretlandi og á meginlandi Evrópu.