Mesta verðbólga í tæp 18 ár

Sverrir Vilhelmsson

Vísitala neysluverðs miðuð við verðlag í apríl hækkaði um 3,4% frá fyrra mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkaði um 4,2% frá mars. Síðastliðna 12 mánuði  hefur vísitala neysluverðs hækkað um 11,8% en vísitala neysluverðs án húsnæðis um 10,6%. Hefur verðbólgan ekki verið meiri í tæp 18 ár eða frá september árið 1990 er verðbóla mæld á tólf mánaða tímabili var 12%.

Er þetta mun meiri hækkun vísitölu neysluverðs heldur en greiningardeildir viðskiptabankanna þriggja spáðu. Greining Glitnis spáði því að vísitala neysluverðs myndi hækka um 2%, greining Landsbankans spáði 1,9% hækkun og greiningardeild Kaupþings 1,8% hækkun.

Gengissig krónunnar skilar sér hratt út í verðlagið

Á vef Hagstofu Íslands kemur fram að gengissig íslensku krónunnar undanfarið hefur skilað sér mjög hratt út í verðlagið og hækkaði verð á innfluttum vörum um 6,2% (vísitöluáhrif 2,1%). Kostnaður vegna reksturs eigin bifreiðar jókst um 7,1% (1,14%). Þar af hækkaði verð á nýjum bílum um 11,0% (0,77%) og á bensíni og olíum um 5,2% (0,24%).

Verð á matvöru hækkaði um 6,4%

Verð á mat og drykkjarvöru hækkaði um 6,4% (0,77%), þar af hækkaði verð á mjólk og mjólkurvörum um 10,2% (0,20%).

Mánaðarbreyting verðbólgu ekki meiri frá júlí 1988

Eins og áður sagði hefur hefur vísitala neysluverðs hækkað um 11,8% síðastliðna tólf mánuði en vísitala neysluverðs án húsnæðis um 10,6%. Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6,4% sem jafngildir 28% verðbólgu á ári (33,1% fyrir vísitöluna án húsnæðis).

Mánaðarbreyting vísitölu neysluverðs hefur ekki verið meiri frá júlí 1988 en þá hækkaði hún um 3,5% og fyrir vísitöluna án húsnæðis frá janúar 1985 en þá hækkaði hún um 4,8%. Miðað við tólf mánaða breytingu vísitölunnar hefur verðbólgan ekki mælst meiri síðan í september 1990.

Vísitala neysluverðs samkvæmt útreikningi í apríl 2008, sem er 300,3 stig, gildir til verðtryggingar í júní 2008. Vísitala fyrir eldri fjárskuldbindingar, sem breytast eftir lánskjaravísitölu, er 5.929 stig fyrir júní 2008.

Grunnur vísitölu neysluverðs er endurnýjaður í apríl á hverju ári og byggist hann nú á niðurstöðum úr útgjaldarannsókn Hagstofunnar árin 2004-2006. Árleg grunnskipti leiða til þess að ekki verða verulegar breytingar á skiptingu útgjalda frá einu ári til annars. þá skal tekið fram að endurnýjun vísitölugrunnsins veldur sem slík ekki breytingum á vísitölunni milli mars og apríl.

Hinn 16. maí næstkomandi verður gefið út hefti Hagtíðinda um vísitölu neysluverðs þar sem nánar verður fjallað um breytingar hennar undangengið ár, að því er segir á vef Hagstofu Íslands.

Þróun verðbólgu undanfarin ár 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka