Bandaríska sælgætisfyrirtækið Mars og fjárfestingafélag í eigu milljarðamæringsins Warren Buffett, Berkshire Hathaway, eru nálægt því að ganga frá samningi um kaup á tyggigúmmíframleiðanum Wm. Wrigley á rúmlega 22 milljarða Bandaríkjadali.
Heimildir Wall Street Journal og New York Times herma að tilkynnt verði um kaupin síðar í dag.
Ef af kaupunum verður munu Mars, sem meðal annars framleiðir sælgæti eins og M&M, Snickers og Wrigley, sem framleiðir tyggjó eins og Extra, Eclipse og Orbit, sameinast. Talið er að sameiningin muni hafa víðtæk áhrif á aðra sælgætisframleiðendur á þann hátt að frekari sameiningar verði í þeim geira.
Buffett, sem á sælgætisframleiðandann Sees Candies, kemur að sameiningunni með því að aðstoða Mars við fjármögnun kaupanna.