Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir nýjar verðbólgutölur skelfilegar enda hafi verðbólga ekki mælst jafn mikil í tæpa tvo áratugi.
Verðbólgan í apríl mældist 11,8% og hefur ekki verið jafn há í tæp átján ár. Er þetta mesta mánaðarhækkun verðbólgu í tuttugu ár.
Aðspurður um hvaða áhrif þetta hafi á nýgerða kjarasamninga segir hann að kjarasamningarnir hafi verið byggðir á ákveðnum hugmundum um þróun mála og tölurnar nú séu alls ekki sú framtíðarsýn sem menn höfðu þá. „Vonast var til þess að kaupmáttur yrði nokkuð stöðugur en nú eru horfur á kaupmáttarrýrnun á árinu. Þar að segja ef gengi krónunnar styrkist ekki á ný."
Hannes segir hækkunina nú einkennast af mjög hröðum viðbrögðum á verði innfluttrar vöru við lækkun gengis. Hækkanir skila sér mjög hratt út í verðlagið nú og segist Hannes ekki geta sagt hvort það sé eðlilegt eða ekki. „Þetta er óvenjuhratt og við höfum ekki séð jafn mikinn hraða á hækkunum í síðustu stóru gengislækkununum,, það er 2006 og 2001 og 2002. Enda hafa ekki sést jafn miklar breytingar síðan á níunda áratugnum," segir Hannes.
Segir Hannes verðbólguna vera allt of mikla nú og hún sé skaðlega há. Hannes segir að taka verði tillit til þess að margt fari saman sem skýri þessa miklu hækkun nú og þar leggist allt á eitt. Má þar nefna hækkun á eldsneytisverði og landbúnaðarvörum en heimsmarkaðsverð hafi hækkað verulega á bæði olíu og matvælum.