Stærsti banki Þýskalands, Deutsche Bank, hefur afturkallað afkomuspá fyrir árið í heild eftir að bankinn skilaði mestu tapi í einum ársfjórðungi í nýliðnum fjórðungi. Nam tap bankans 131 milljón evra samanborið við hagnað upp á 2,12 milljarða evra á fyrsta ársfjórðungi í fyrra.
Fjármálastjóri bankans, Anthony di Iorio, sagði á fundi með greiningardeildum í morgun að fjármálakreppan sem nú ríki geri það ómögulegt að gefa út spá um afkomu fyrir árið í heild.
„Það eru óvissutímar og markaðirnir eru óútreiknanlegir," sagði Iorio.
Tap Deutsche Bank fyrir skatta nam 254 milljónum evra en hagnaður fyrir skatta á fyrsta ársfjórðungi í fyrra nam 3,16 milljörðum evra. Deutsche Bank hefur afskrifað 2,7 milljarða evra.
Í fréttatilkynningu er haft eftir stjórnarformanni bankans, Josef Ackermann, að nýliðinn ársfjórðungur sé sá versti á fjármálamörkuðum í manna minnum.