Íslendingurinn Hermann Haraldsson, sem nýlega var ráðinn framkvæmdastjóri danska íþróttafélagsins Brøndby IF, kemur inn í stjórn Dagsbrun Media, sem stendur að útgáfu Nyhedsavisen. Morten Lund, sem á meirihluta í félaginu, staðfestir þetta við viðskiptavef Berlingske Tidende í dag.
Dagsbrun Media á félagið 365 Media Scandinavia, sem gefur út Nyhedsavisen. Jimmy Maymann, framkvæmdastjóri markaðsfélagsins GoViral, kemur einnig inn í stjórnina en þar eru fyrir, auk Lunds, Þórdís Sigurðardóttir, forstjóri Stoða Invest, og Lars Lindstrøm, fjármálastjóri Dagsbrun Media.
Hermann Haraldsson stýrði birtingarhúsinu OMD í átta ár en stofnaði þá birtingarhúsið Win Win Agency. Lund segir, að Dagsbrun Media vilji sannfæra birtingarhúsin um að Nyhedsavisen sé besta blaðið í Danmörku og það mest lesna en fallið hafi á þá mynd vegna mikillar umfjöllunar í Danmörku um íslenska fjárfesta.
„Ef markaðurinn sýnir okkur sanngirni í ljósi lesendafjölda okkar mun fyrirtækinu ganga frábærlega," segir Lund.