Tap á rekstri Vinnslustöðvarinnar var 1153 milljónir króna á fyrsta fjórðungi ársins en á sama tímabili á síðasta ári var 765 milljóna króna hagnaður á rekstrinum. Segir félagið að skýringa þessara
breytinga er fyrst og fremst að leita í fjármagnsliðum félagsins.
Heildartekjur félagsins voru 1623 milljónir króna en 1750 milljónir króna á sama tímabili í fyrra. Tekjur lækkuðu bæði í útgerð og fiskvinnslu.
Rekstrargjöld hækkuðu um 94 milljónir króna eða úr 1159 milljónum króna í fyrra í 1253 milljónir króna nú.
Framlegð félagsins nam tæplega 370 milljónum króna og dróst saman um 37,5% frá fyrra ári þegar hún var 592 milljónir króna. Skýrist þessi samdráttur að mestu af minni loðnuveiði í ár miðað við sama tímabil í fyrra.
Niðurstaða fjármagnsliða var neikvæð um 1470 milljónir króna á fyrsta ársfjórðungi. Gengistap langtímaskulda félagsins var 1487 milljónir króna, sem skýrist af áhrifum veikingar krónunnar á tímabilinu. Á sama tímabili í fyrra voru fjármagnsliðir jákvæðir um 378 milljónir króna.
Tilkynning Vinnslustöðvarinnar