Samdráttur í sölu nýrra bifreiða var viðbúinn en töluvert hraðari og meiri en forsvarsmenn bílaumboða reiknuðu með. Dróst salan saman um 44,1% í síðasta mánuði miðað við apríl í fyrra. Forstjóri Brimborgar og formaður stjórnar Bílgreinasambandsins segir ekki óvarlegt að áætla að sala nýrra bíla í ár dragist saman um 30-40% miðað við síðasta ár.
Árið fór afar vel af stað hjá bílaumboðunum og sérstaklega var mikið keypt af bílum í janúar. Í marsmánuði fór hins vegar að hægjast um. Özur Lárusson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins, segir að vikuna fyrir páska hafi svo botninn alveg dottið úr sölunni. „En sem betur fer voru flestir undirbúnir að einhverju leyti. Búið var að huga að pöntunum og því enda menn ekki með gríðarlegar birgðir sem þeir geta ekki selt.“