Bandaríski fjárfestirinn Warren Buffett segir að það versta sé afstaðið í fjármálakreppunni á Wall Street, en almenningur muni enn um sinn finna fyrir þrengingum. Enn séu „erfiðir tímar“ framundan hjá handhöfum húsnæðislána.
Buffett er framkvæmdastjóri fjárfestingafélagsins Berkshire Hathaway, og kom þetta fram í viðtali við hann í Bloomberg-sjónvarpinu í upphafi ársfundar félagsins í Omaha í Nebraska.
Á fundinn mættu um 31.000 manns, en ársfundur félagsins er stundum nefndur „Woodstock fyrir kapítalista,“ að því er BBC greinir frá.