Svissneski bankinn UBS tilkynnti í morgun, að tap á rekstri bankans á fyrsta ársfjórðungi hefði numið 11,5 milljörðum svissneskra franka, jafnvirði nærri 840 milljarða íslenskra króna.
Bankinn hafði áður varað við að búast mætti við allt að 12 milljarða franka tapi á tímabilinu en hann afskrifaði 19 milljarða dala skuldabréfaeign sem tengist svonefndum undirmálslánum á bandarískum fasteignamarkaði.
Bankinn segir í yfirlýsingu í dag, að fækkað verði um 5500 störf á næstunni, þar af um 2600 í fjárfestingarbankastarfsemi.
UBS, sem er stærsti banki í Sviss, hefur alls tapað jafnvirði 2870 milljarða króna frá því sl. sumar, aðallega vegna undirmálslánakreppunnar bandarísku.