Sérfræðingur hjá Goldman Sachs segir ekki útilokað að verð á hráolíu fari í 150-200 dali tunnan á næstu sex til 24 mánuðum. Það sé hins vegar ómögulegt að spá fyrir um olíuverð fram í tímann með nokkurri vissu í dag. Þetta kemur fram í minnismiða sem Arjun N. Murti, sérfræðingur hjá Goldman Sachs sendi á viðskiptavini.
Verð á hráolíu til afhendingar í júní fór í 122 dali tunnan í rafrænum viðskiptum í New York í dag. Hefur það aldrei verið jafn hátt.
Í apríl 2005 spáði Murti því að olíuverð ætti eftir að fara í allt að 105 dali tunnan og var hlegið að honum á þeim tíma. Á þeim tíma var haft eftir sérfræðingi hjá Citi, Tim Evans, að spá Murti væri brandari. Í dag segir Evans í minnisblaði til viðskiptavina að það sé alveg jafn líklegt að verð á hráolíu eigi eftir að lækka um 40-50 dali á næstu 6 til 24 mánuðum eins og það eigi eftir að hækka líkt og Murti spáir.
Murti spáir því að verð á hráolíu verði að meðaltali 110 dalir tunnan árið 2009 og 120 dalir á árunum 2010 til 2011. En í spánni hefur hann þann fyrirvara að ekki sé útilokað að verð á hráolíu fari í 125 dali tunnan í ár og 200 dali á næsta ári. Síðan muni verðið lækka í 150 dali tunnan árið 2010.