Tap á rekstri félagsins 365 var 970 milljónir króna eftir skatta á fyrsta fjórðungi ársins samanborið við 35 milljóna króna tap á sama tímabili á síðasta ári.
Fram kemur í tilkynningu félagsins, að tekjur námu 3461 milljón og jukust um 29% frá fyrra ári. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsgjöld námu 187 milljónum og jókst um 35% frá fyrra ári. Handbært fé frá rekstri jókst um 178 milljónir frá áramótum og var 368 milljónir í lok
tímabilsins. Gengisfall íslensku krónunnar leiddi til 940 milljóna króna gengistaps á fyrsta ársfjórðungi.
Ari Edwald, forstjóri, segir í tilkynningunni, að niðurstaðan sé viðunandi og gefi ekki tilefni til að breyta áætlunum ársins. Rekstur samstæðunnar í heild sé ekki langt frá rekstraráætlun þrátt fyrir ákveðna erfiðleika í afþreyingarhlutanum. Þar sé fyrst og fremst um að ræða lægð í sölu á erlendri tónlist og DVD myndum en fyrirtækið vinnur að aukinni dreifingu á þeim vörum. Rekstur fjölmiðla hafi gengið betur en áætlanir gerðu ráð fyrir.