Reynir á viðnámsþrótt bankanna

Seðlabanki Íslands
Seðlabanki Íslands mbl.is/Ómar

Brýnasta verkefni bankanna í bráð er að tryggja aðgang að erlendu lánsfé og minnka lánsfjárþörf. Þá skiptir traust fjárfesta og innstæðueigenda mjög miklu. Ólíklegt er að skilyrði á alþjóðlegum mörkuðum batni verulega innan tíðar, að sögn Davíðs Oddssonar, formanns bankastjórnar Seðlabanka Íslands, þegar hann kynnti skýrsluna Fjármálastöðugleika á fundi með fjölmiðlum í dag.

Í Fjármálastöðugleika fyrir ári var niðurstaða greiningar Seðlabanka Íslands sú að fjármálakerfið væri í meginatriðum traust. Sú niðurstaða er óbreytt.

Segir í skýrslunni að atburðarás sem hófst eftir mitt síðasta ár og afleiðingar hennar á alþjóðlegum fjármálamarkaði voru óvæntar. Áhættusækni vék fyrir áhættufælni og ekki sér fyrir endann á óvissu sem birtist m.a. í lausafjárþrengingum og áhyggjum af efnahagshorfum.

Seðlabankinn gerði ekki ráð fyrir að veðrabrigðin yrðu svo skörp sem raun ber vitni. Í skýrslu bankans í fyrra var engu að síður varað við hættum sem framundan kynnu að vera. Í niðurstöðukafla skýrslunnar sagði: „Seðlabanki Íslands leggur áherslu á að skilyrði á alþjóðlegum fjármálamörkuðum geta breyst skyndilega til hins verra. Því er rík ástæða til þess að hafa vara á og viðbúnað til þess að mæta erfiðari aðstæðum. Tími lausafjárgnóttar og lágra vaxta sem er óskaumhverfi áhættusækinna fjárfesta kann að breytast fyrr en varir.”  Jafnframt sagði: „Ein helsta hættan sem steðjar að íslenskum þjóðarbúskap og fjármálakerfinu um þessar mundir er hröð og óvænt hækkun á erlendum vöxtum og vaxtaálögum.”

Þetta hefur nú komið fram. Í skýrslu þessari er leitast við að meta styrk fjármálakerfisins við þær aðstæður sem nú ríkja, sagði Davíð.

„Breytingarnar á alþjóðlegum lánamarkaði eru raktar til Bandaríkjanna en rætur vandans liggja víðar og dýpra. Þar var á síðustu árum skapaður markaður með húsnæðislán til lántakenda með mjög takmarkaða greiðslugetu, svokölluð undirmálslán.

Fjármálafyrirtæki komu stórum hluta lánanna fyrir í skuldabréfavafningum þar sem bætt var við lánum með hærra lánshæfismat, m.a. skuldabréfaútgáfum íslensku bankanna, og vafningarnir í heild hlutu góðar lánshæfiseinkunnir. Þegar vanskil jukust og fasteignaverð tók að lækka fór að bera á afföllum á þessum vafningum. Í kjölfarið lækkuðu matsfyrirtæki lánshæfiseinkunnir fjölda þeirra. Þegar fjárfestar reyndu að  grynnka á stöðum sínum í slíkum vafningum þornaði eftirmarkaður upp. Íslenskir bankar fjárfestu lítið í þessum vafningum en hafa orðið fyrir óbeinum áhrifum af völdum þeirra.

Töp af þessum og öðrum áhættusömum fjárfestingum hafa komið illa niður á fjölda banka í Bandaríkjunum og Evrópu. Óvissa um hvaða bankar hefðu mikið undir í slíkri fjárfestingarstarfsemi leiddi til þess að vextir á millibankamörkuðum hækkuðu snögglega. Framboð á skammtímalánsfé dróst verulega saman þar sem bankar hömstruðu lausafé og vantreystu hver öðrum í viðskiptum sín á milli. Fjöldi banka hefur orðið að afskrifa háar fjárhæðir sem hefur veikt eiginfjárstöðu þeirra. Margir þeirra hafa þegar orðið að afla nýs eigin fjár og viðbúið er að fleiri eigi eftir að gera slíkt," að því er segir í skýrslunni.

Lausafjárþurrð á alþjóðlegum millibankamarkaði á haustmánuðum leiddi til þess m.a. að seðlabankar Bandaríkjanna, Evrópu og Bretlands gripu til ýmissa aðgerða til þess að tryggja bönkum skammtímalánsfé. Einnig hafa stjórnvöld beggja vegna Atlantsála stutt einstök fjármálafyrirtæki og beint eða óbeint ábyrgst innlán umfram þá vernd sem tryggingarsjóðir veita.

Íslensku bankarnir þróttmiklir og eiginfjárstaða viðunandi

Ársreikningar íslenskra fjármálafyrirtækja fyrir árið 2007, sérstaklega þriggja stærstu bankanna, sýna enn sem fyrr að þeir eru þróttmiklir. Eiginfjárstaða, arðsemi og lausafjárstaða þeirra er viðunandi. Álagspróf Fjármálaeftirlitsins (FME) og Seðlabankans staðfesta þetta. Rekstraruppgjör bankanna fyrir fyrsta fjórðung þessa árs er í samræmi við það mat. Vegna umframeignar í erlendum gjaldeyri urðu þeir ekki fyrir tapi af völdum lækkunar á gengi íslensku krónunnar heldur þvert á móti.

Um helmingur heildareigna samstæðna bankanna er í erlendum dótturfélögum og jafnframt er stór hluti útlána móðurbankanna til erlendra lánþega. Talið er kostur að eignasafn banka og fjármögnun þess séu dreifð. Stóru íslensku bankarnir hafa á síðustu árum aukið umsvif sín erlendis. Þeir eru ekki síður evrópskir bankar en íslenskir og lúta sömu reglum og bankar í Evrópu. Tekjur þeirra eru fjölbreyttar og koma víða að. Í heild afla þrír stærstu bankarnir nú meira en helmings tekna sinna með starfsemi utan Íslands. Það er einnig kostur að þeir hafa farið ólíkar leiðir í sókn sinni. Eignasafn þeirra og fjármögnun er að meginhluta til í Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku," samkvæmt skýrslunni.

Davíð segir að bankarnir voru á margan hátt vel búnir undir að mæta lausafjárþrengingum og efnahagslegum áhrifum þeirra á starfssvæðum sínum. Að nokkru má rekja það til viðbragða þeirra við andstreyminu sem þeir mættu á fyrri hluta árs 2006 en sá vandi var ekki alþjóðlegur. Nú takast þeir á við lækkun eignaverðs, hækkun fjármagnskostnaðar og takmarkaðan aðgang að erlendum lánsfjármörkuðum.

„Í skýrslunni er  ítarlega fjallað um stöðu, áhættu, fjármögnun og viðnámsþrótt bankanna.  M.a. eru útlánagæði bankanna metin á grundvelli útlána samstæðna bankanna, þ.e. út frá áhættuflokkun lántakenda erlendis sem hérlendis, og áætlað vænt og óvænt tap.

Niðurstaðan er sú að bankarnir séu ágætlega í stakk búnir til að takast á við vaxandi vanskil og útlánatöp. Þau hafa til þessa verið afar lítil. Nauðsynlegt er þó að benda á áhættuþætti sem gætu reynst erfiðir viðfangs við þær aðstæður sem framundan kunna að vera. Á liðnu ári hækkaði hlutfall stórra áhættuskuldbindinga af eigin fé bankanna sem og hlutfall eignarhaldsfélaga í útlánum. Ástæða er til að gefa þeirri þróun gaum. Þá er enn töluvert um útlán með veði í hlutabréfum. Verðmæti veðanna hefur lækkað á síðustu misserum. Lítið hefur þó verið um þvingaðar sölur vegna veðkalla og tryggingarþekja bankanna er rúm samkvæmt upplýsingum Fjármálaeftirlitsins."

Aukin óvissa

Skilyrði á helstu markaðssvæðum bankanna eru viðunandi en óvissa hefur aukist. Útlán til innlendra aðila vega léttar í eignasafni fjármálafyrirtækja en á árum áður en þau eru enn mikilvægur þáttur þess. Framvinda efnahagslífsins og eignaverðsbreytingar munu hafa áhrif á gæði þessara eigna.

Ójafnvægið í þjóðarbúskapnum sem fjallað hefur verið um í Fjármálastöðugleika undanfarin ár hefur nú m.a. leitt til snarprar gengislækkunar krónunnar. Hún veikir efnahagsreikning heimila og fyrirtækja sem á undanförnum árum hafa aukið skuldir sínar og tekið á sig gjaldmiðlaáhættu. Mikil verðbólga gerir til muna vandasamara en ella að kljást við samdrátt í efnahagslífinu sem óhjákvæmilega fylgir umtalsverðum afturkipp á eignamörkuðum. Því er brýnt að Seðlabankinn nái verðbólgumarkmiðinu svo fljótt sem auðið er og að traust skapist um gjaldmiðilinn, að sögn Davíðs.

 Aukin gjaldmiðlaáhætta umhugsunarefni

Aukin gjaldmiðlaáhætta heimila og fyrirtækja sem ekki hafa gjaldeyristekjur er umhugsunarefni sem og aukin hlutdeild útlána til skuldsettra eignarhaldsfélaga. Engu að síður er það svo að gengisbundnar skuldir heimila eru ekki nema lítill hluti heildarskulda þeirra og miklum meiri hluta gengisbundinna lána bankanna hefur verið veitt til lánþega sem hafa töluverðar eða miklar tekjur í erlendum gjaldeyri. Lánþegar verða því síður fyrir skakkaföllum af völdum lækkunar á gengi krónunnar. Þeir sem ekki njóta slíkra tekna verða ver settir en áður. Það eykur vandann að á sama tíma mun markaðsverð þeirra eigna sem lögð eru að veði rýrna. Miklu skiptir þó að veðhlutföll í fasteignaveðlánum bankanna lækkuðu á milli ára og eru viðunandi frá sjónarhóli fjármálastöðugleika."

Skuldsettustu heimilin gætu lent í greiðsluerfiðleikum

Þrátt fyrir skuldaaukningu hefur hrein eignastaða heimila batnað á undanförnum árum. Greiðslubyrði er á heildina litið vel viðráðanleg ef ráðstöfunartekjur skerðast ekki að marki. Staða margra heimila verður hins vegar erfiðari á næstu árum. Skuldir hinna skuldsettustu meðal þeirra hafa aukist langt umfram meðaltal. Þessi heimili gætu lent í greiðsluerfiðleikum. Margt bendir til þess að húsnæðisverð sé langt yfir langtímajafnvægi. Því er gert ráð fyrir að raunverð íbúðar- og atvinnuhúsnæðis lækki á næstu árum með auknum fjármagnskostnaði. Velta á húsnæðismarkaði hefur dregist ört saman að undanförnu og raunverð er tekið að lækka, að sögn Davíðs.

„Fyrirtækin finna nú fyrir hækkun fjármagnskostnaðar sem rýrir stöðu þeirra og þau verða að laga umsvif sín að auknu útlánaaðhaldi bankanna. Að nokkru leyti hefur hærri fjármagnskostnaður fjármálafyrirtækja þegar komið fram í lakari kjörum fyrirtækja og heimila. Þótt fjármálafyrirtæki nái þannig að hluta að endurheimta kostnað sinn og draga úr eigin rekstrarkostnaði skerðir þessi staða óhjákvæmilega samkeppnisstöðu þeirra, sérstaklega á erlendum mörkuðum," segir Davíð.

Við eðlilegar aðstæður á banki sem hefur viðunandi eiginfjárstöðu ekki að eiga erfitt með að fjármagna starfsemi sína. Vegna óvissu og áhættufælni hefur aðgengi að fjármagni verið takmarkaðra en áður og lánshæfi hefur skerst. Þessar aðstæður hafa meiri áhrif á íslensku bankana en ella þar sem erlend markaðsfjármögnun er stór hluti af skuldum þeirra. Umfangsmikil fjármögnun erlendis kallar á gott lánshæfismat og traustan orðstír. Allt frá liðnu hausti hafa bankarnir haldið sig frá almennum útgáfum á erlendum lánamarkaði og því leitað annarra leiða.  

„Þeir hafa brugðist við erfiðleikum í erlendri lánsfjármögnun með því að hægja á vexti útlána, ráðast í einkaútgáfur, auka innlán og draga úr kostnaði. Hætt var m.a. við yfirtökur á erlendum fjármálafyrirtækjum og undið ofan af eignaleigu- og veðlánastarfsemi erlendis sem losar fjármagn til annarra nota. Almennt hefur gengið vel að auka innlán og í lok árs 2007 voru meira en tveir þriðju hlutar innlána þriggja stærstu bankanna frá erlendum aðilum. Nokkrar sveiflur hafa verið í innlánum á ólíkum markaðssvæðum. Skuldatryggingarálög íslensku bankanna sem hækkuðu mjög undir lok síðasta árs og framan af yfirstandandi ári lækkuðu verulega í apríl sl.

Brýnasta verkefni bankanna í bráð er að tryggja aðgang að erlendu lánsfé og minnka lánsfjárþörf. Þá skiptir traust fjárfesta og innstæðueigenda mjög miklu. Ólíklegt er að skilyrði á alþjóðlegum mörkuðum batni verulega innan tíðar og þegar úr rætist munu fjárfestar sýna meira aðhald og varfærni en áður var," segir Davíð.

Sterk staða ríkissjóðs mikilvæg

Stjórnvöld, þ.e. ríkisstjórnin, Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn, hafa á undanförunum árum eflt samstarf sitt í viðlagamálum. Jafnframt taka þau þátt í víðtækara samstarfi. Sem dæmi má nefna samnorræna viðlagaæfingu sem haldin var í september sl. og þátttöku í nefndum Evrópusambandsins sem vinna að fjármálastöðugleika.

 Stjórnvöld í Evrópu hafa skerpt viðbúnað sinn gagnvart aðstæðum sem upp kunna að koma í fjármálafyrirtækjum sem starfa í fleiri löndum en einu. Dæmi um þetta er nýgert samkomulag milli fjármálaráðuneyta, fjármálaeftirlita og seðlabanka Evrópusambandslandanna. Slíkt samstarf er mikilvægt, sérstaklega fyrir smærri löndin þar sem höfuðstöðvar umsvifamikilla banka eru.   

Með aðild sinni að Evrópska efnahagssvæðinu nýtur Ísland m.a. þess að starfsskilyrði fjármálafyrirtækja eru sambærileg við það sem gildir innan Evrópusambandsins. Auk þess heldur Ísland ýmsum sérkennum sem skipta máli fyrir efnahagslega framvindu, svo sem hagstæðu skattaumhverfi fyrirtækja, skilvirkri stjórnsýslu og sveigjanleika á vinnumarkaði. Eftirlit skiptir miklu máli og hefur Fjármálaeftirlitið verið eflt. Þá hafa greiðslu- og uppgjörskerfin verið styrkt þannig að hætta á áföllum af tæknilegum toga er í lágmarki og einnig hefur mótaðilaáhættu verið eytt.

„Miklu máli skiptir hve staða ríkissjóðs er sterk. Afgangur hefur verið á fjárlögum og ríkissjóður á verulegar innstæður í Seðlabankanum. Hreinar skuldir ríkissjóðs við útlönd að meðtöldum gjaldeyrisforða eru engar. Gjaldeyrisforðinn var tvöfaldaður árið 2006 og eiginfjárstaða Seðlabankans styrkt. Það kemur sér vel í núverandi stöðu og ríkisvaldið hefur lýst yfir vilja til að efla þessa stöðu enn. Um leið verður að gæta þess að skapa ekki freistnivanda," segir Davíð.

 Því hefur verið haldið fram að íslensku bankarnir séu orðnir of stórir. Það má til sanns vegar færa ef stórfellt fjármálaáfall yrði ekki umflúið og íslensk stjórnvöld stæðu ein að úrlausn áfalls sem tæki til bankarekstrar hérlendis sem og í öðrum löndum.

Að öðru leyti ætti ekki að valda vanda að fyrirtæki velji sér starfsvöll þar sem þeim hentar og nýti hlutfallslega yfirburði, sbr. sjávarútveg og áliðnað, sem einnig eru með umsvif hér á landi langt umfram eigin þarfir landsins. Ísland er fullgildur þátttakandi á innri markaði Evrópusambandsins, þ.m.t. á innri markaðnum fyrir fjármálaþjónustu. Allt frá því að stefnan var mörkuð árið 1992 um innri markað fyrir vörur, þjónustu, fjármagn og vinnuafl hefur verið unnið að því að hann starfi sem ein heild. Hvatt hefur verið til viðskipta milli landa og aukinnar starfsemi yfir landamæri. Hvergi hefur verið hreyft hugmyndum um stærðarmörk á bankakerfi einstakra landa og beinlínis hefur verið lagst gegn fyrirstöðu við kaup erlendra fjárfesta á innlendum bönkum. Í senn má finna dæmi um lönd þar sem höfuðstöðvar banka eru að mestu leyti erlendis, sbr. Eystrasaltslöndin, og um hið gagnstæða, þar sem heimabankar eru umsvifamiklir í öðrum löndum, sbr. Ísland, Lúxembúrg, Holland, Bretland, Danmörku og Írland, að því er segir í skýrslu Seðlabankans um fjármálastöðugleika.

 
Fjármálakerfið er traust en þörf er á viðbúnaði

„Helstu áhættuþættirnir fyrir fjármálakerfið eru tilgreindir í töflu hér á eftir. Þeir eru viðkvæmur gjaldeyrismarkaður og tregt aðgengi að fjármagni sem felur í sér skammtímaáhættu. Til lengri tíma litið felst áhættan fremur í áhrifum hærri fjármagnskostnaðar og hættu á rýrnun eignagæða.

 Mestu máli skiptir hve vel viðbúið og máttugt fjármálakerfið er til að mæta áföllum, þ.e. hver viðnámsþróttur þess er. Í síðari töflunni eru tilgreindir þættir sem helst treysta viðnámsþrótt fjármálakerfisins. Þeir eru góðar langtímahorfur í íslensku efnahagslífi, viðunandi staða bankanna, traust opinber umgjörð og eftirlit sem og örugg greiðslu- og uppgjörskerfi og ekki síst sterk staða ríkissjóðs. Sömu þættir voru tilgreindir í síðustu skýrslu en staða bankanna hefur veikst frá því sem þá var, einkum vegna minna framboðs lánsfjár á alþjóðamarkaði.

 Margt af því sem talið var til áhyggjuefna í síðustu skýrslu hefur þegar komið fram, svo sem lækkun á gengi krónunnar, lækkun hlutabréfaverðs, kólnun fasteignamarkaðar, hækkun vaxtaálaga og fleira. Viðbúið er að glíma þurfi við fjölþætta áhættu en lágmarka þarf líkur á fjármálaáfalli sem skaðað gæti afkastagetu efnahagslífsins og lífskjör. Reynsla annarra landa sýnir hve mikilvægt það er.

Á heildina litið er niðurstaða Seðlabankans enn sú að fjármálakerfið sé í meginatriðum traust. Íslenska bankakerfið uppfyllir kröfur sem gerðar eru til þess og stenst álagspróf sem Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn hafa gert," segir Davíð Oddsson en hann kynnti fyrir fjölmiðlum skýrslu um fjármálastöðugleika í dag.

Ritið Fjármálastöðugleiki 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka