Samþykkt var á hluthafafundi FL Group í morgun að afskrá félagið úr Kauphöll
Íslands með einu mótatkvæði. Allar tillögur sem lágu fyrir fundinum voru
samþykktar. Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður FL Group, segir að með afskráningunni
sé félagið ekki að hlaupa út úr kauphöllinni með skottið á milli lappanna
heldur hafi þetta verið besta niðurstaðan miðað við aðstæður á mörkuðum. Segir Jón Ásgeir að eiginfjárstaða FL Group sé góð en eigið fé félagsins er 115 milljarðar króna.
Í samtali við Morgunblaðið sagði Vilhjálmur Bjarnason, formaður samtaka fjárfesta, þetta vera dapurlegan endi en Vilhjálmur sat hjá við atkvæðagreiðsluna.