Óvenjumikill fjöldi bíla er nú á geymslusvæðum skipaflutningafélaganna. Bílarnir eru geymdir á þessum svæðum þar til þeir eru tollafgreiddir.
Hjá Samskipum fengust þær upplýsingar að á þeirra geymslusvæði væru nú hátt á þriðja þúsund bílar sem biðu afgreiðslu, en á síðasta ári voru að jafnaði um þúsund bílar í geymslu.
Fulltrúi Eimskipa vildi ekki gefa nákvæmar upplýsingar um fjölda bíla í geymslu. Ef áætlað er að Eimskip séu með jafnmarga bíla í geymslu og Samskip gerir það samtals nærri sex þúsund bíla, en til samanburðar má nefna að á öllu síðasta ári seldust tæplega 16.000 nýir fólksbílar. Geymdir bílar nú nema því um þriðjungi af heildarsölu ársins 2007. Mest var bílasalan árið 2005 þegar rétt rúmlega 18.000 fólksbílar voru seldir.
Það sem af er árinu hafa selst rúmlega 4 þúsund bílar en salan var mest í upphafi ársins. Í síðustu viku seldust 214 nýir bílar.