Útreikningar millibankavaxta endurskoðaðir

Bresku bankasamtökin (e. British Bankers Association, BBA) tilkynntu í dag að þau hyggjast endurskoða hvernig millibankavextir á markaði í London (LIBOR) eru ákvarðaðir. LIBOR vextir eru notaðir sem viðmiðun í viðskiptum með margs konar fjármálagerninga og gætir áhrifa þeirra á hagkerfi um allan heim. Nefna má að títtnefnt skuldatryggingaálag á banka er oftast skilgreint sem álag ofan á LIBOR vexti, að því er segir í Vegvísi Landsbankans.

„Undanfarin ár hefur ákvörðun LIBOR vaxta hvern dag byggst á því að hópur 16 banka er spurður hvaða vexti hver banki hafi greitt fyrir lán í dollurum, pundum, evrum og átta öðrum gjaldmiðlum. Fjárfestar hafa hins vegar gagnrýnt það að bankarnir sjái sér hag í að gefa upp lægri vaxtaprósentu en þeir eru í reynd að greiða. Ástæðan er að bankar telja það veikleikamerki að þeir þurfi að greiða háa vexti, þar sem aðgengi að lánsfé á mörkuðum hefur verið takmarkað undanfarna mánuði.

Ein vísbending um að vextir séu rangt skráðir er aukinn munur á lánskjörum sem mæld eru af seðlabönkum annars vegar og LIBOR vöxtum hins vegar. Til dæmis voru LIBOR vextir í dollurum sem ákvarðaðir voru að morgni dags þann 7. apríl s.l. sagðir vera 2,72% en síðar um daginn tilkynnti Seðlabanki Bandaríkjanna að vextir á skuldabréfum banka með veði í eignum væru 2,82% þann daginn. Undir venjulegum kringumstæðum ætti ávöxtunarkrafa slíkra veðskuldabréfa að vera nokkru lægri en skulda án veðtryggingar.

Einnig benda gagnrýnendur á að LIBOR vextir hækkuðu umtalsvert 16. apríl s.l. eftir að BBA tilkynnti að þeir bankar sem vísir yrðu að því að gefa upp ranga vexti yrðu teknir út af sakramentinu. Hækkunin var raunar sú mesta frá því að lánsfjárkreppan hófst síðasta haust, eða um 18 punktar á tveimur dögum," samkvæmt Vegvísi Landsbankans.

Greint var frá því í Morgunblaðinu þann 21. apríl að Libor-vextir hefðu hækkað óvænt og því hefði BBA áform um að kanna tilkynningar banka um þá vexti sem bönkunum eru boðnir á lánum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK